Fréttir

Langadalsá umsetin af eldislaxi – leigutakar kalla eftir ákæru á Arctic Fisk

Allt að gerast í Langadalsá, laxaparið í Grundarfljóti í Langadalsá Mynd/Elías Pétur

„Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að þúsundir eldislaxa sluppu nýverið úr netpokum Arctic Fish í Patreksfirði. Þessir laxar synda nú upp ár landsins og hafa á annað hundrað þeirra veiðst á stöng,“ sagði Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson í samtali.

Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson

„Talsmenn sjókvíaeldis fyrirtækjanna og SFS hafa undanfarið reynt að afvegaleiða umræðuna, draga úr hættunni sem þessi slepping skapar og lofað því að hreinsa upp eftir sig skítinn. Þessir sömu aðilar töluðu alltaf um að eldislaxinn myndi ekkert sleppa. Þegar það svo gerðist var sagt að þeir myndu allir halda sig nærri kvíunum, væru að langstærstum hluta ófrjóir og að hættan á erfðablöndun væri lítil sem engin. Nú hefur þetta þó allt verið staðfest og í ljós komið að þessir aðilar hafa rangt fyrir sér um flest allt!  Ég er í dag staddur í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi á veiðum og er áin því miður umsetin eldislaxi. Ég tók myndina hér að neðan í gær og staðfestir hún það sem ítrekað hefur verið bent á að myndi gerast; villtur laxahængur hefur parað sig við eldislaxahrygnu. Þetta er ná­kvæm­lega það sem menn hafa ótt­ast, erfðablönd­un,“ segir Elías enn fremur.

Hver leigutakinn á fætur öðrum stígur nú fram og kalla eftir ákæru á forráðamenn  Arctic Fish, löxunum fjölgar í ánum og erfitt verður að afstýra slysinu. Náttúrulegu laxastofnarnir eru í bullandi hættu í fjölda laxveiðiáa.