Fréttir

Boltafiskur úr Hrútafjarðará

Hrútafjarðará
Lax kominn á land í Maríubakka í Hrútafjarðará

„Það jókst einungis lítillega vatnið í Hrútafjarðará en nóg til að sett var í sex laxa í morgun og tveim landað,“ sagði Þröstur Elliðason hjá Veiðiþjónustunni Strengjum og bætti við; „nokkuð líflegt sögðu veiðimenn á morgunvaktinni. Og í gær komu tveir laxar á land úr Maríubakka og þar af var annar 93 cm (sjá mynd) sem er þá sá stærsti í sumar. Bleikjuveiðin hefur verið betri en undanfarinn ár og nokkuð vænar líka.  Lítil ástundun hefur verið í hliðarár Jöklu og nánast ekkert vatn er í Laxá og Fögruhlíðará! Kaldá heldur vatni betur og sá sem veiddi þar síðast fyrir helgi fékk 80 cm hrygnu ofarlega í Kaldá í Lundahólum. Góð bleikjuveiði hefur aftur á móti verið í ósunum í ágúst. Vonandi fer að rigna fyrir austan því töluverður lax virðist einnig vera að bíða í ármótum við jökulvatnið í Jöklu og hliðarám,“ sagði Þröstur enn fremur.