DorgveiðiFréttir

Fallegt við Elliðavatn en vatnið ekki ísilagt

/Mynd: María Gunnarsdóttir

Það er alveg ótrúlegt að Elliðavatn skuli ekki vera allt ísilegt eftir skítakulda síðustu vikna, en fallegt var við vatnið í dag og það styttist með hverjum deginum að veiðitíminn byrji. Lítil er dorgveiði á Elliðavatni enda veiðin bönnuð á vatninu yfir vetrartímann. Labbitúr við vatnið er meiriháttar í svona veðri, getur ekki verið betri útivera.

Annað er hægt að segja um Hafravatn þar sem veiðimenn hafa mikið stundað vatnið í vetur og veiðin verið ágæt, enda má veiða þar allt árið og það góða við Hafravatn er að veiðileyfið kostar ekki krónu.

„Við fórum daginn að Hafravatni og fengum nokkra fiska en ekki stóra en útiveran var frábær og mikið af veiðimönnum að veiða,” sagði veiðimaður sem stundar mikið dorgveiði og bætti við; „fórum upp í Borgarfjörð um daginn og fengum fína veiði.”

Það er spáð köldu veðri áfram og vötnin eru ísilögð. Gaman að dorga þar sem það má, bara klæða sig verulega vel.