Hann synti tígnarlega aftur í dýpið
„Við konan ákveðum að skella okkur í rómantíska veiðiferð í Ytri-Rangá urriðasvæði og var sko heldur betur ekkert stress á okkur,” sagði Ómar Smári Óttarsson og bætti við; „við keyrðum í rólegheitum, stoppuðum á kaffihúsi á Selfossi og byrjuðum ekki að veiða fyrr en um hádegisbilið. Veiddum í tvo tíma skelltum okkur svo á hellu þar sem við fengum okkur pizzu, tókum svo smá rúnt þar sem hún Sara mín fékk að sinna áhugamálinu sínu, sem er náttúrulega að leggja sig.
Ákveðum síðan að prófa einn veiðistað í viðbót þar sem var frekar mikið rok og ekki skemmtilegustu aðstæðurnar í að vera útí að veiða.
Eftir smá rölt niður ána komum við að veiðistað að nafni krók. Þar tók ég nokkur köst með risa black ghost túpu og boom fiskur á! Ég slæst við fiskinn smá stund og læt Söru fá stöngina. Eftir 15 – 20 min áttaði ég mig síðan á því að þetta væri nú enginn tittur og hleyp ég til að ná í háfinn dett í einhverjum þúfum og eitthvað bras.
Að lokum næ ég að háfa skepnuna og háfurinn bognar í drasl og er orðinn ónothæfur núna bara svona til að bæta því við.
Ég hugsaði strax hvað er þetta! Þetta er stærsti og feitasti urriði sem ég hef séð, við Sara tókum nokkrar myndir og klöppuðum honum smá og gáfum honum svo líf.
Hann synti tignarlegur aftur í dýpið og greyið Sara mín alveg búinn í bicepnum. Í fyrra fórum við í veiði og fengum líka stóra fiska, það má eiginlega segja að hún Sara mín sé eitthvað lukkutröll. Alla vega hér með eftir kemur hún með í allar veiðiferðir og fær engu um það ráðið punktur,”sagði Ómar enn fremur.
