Fréttir

Ólafur F farið tvisvar í Elliðaárnar í sumar

„Ég elska Elliðaárnar og Elliðaárdalinn af hug og hjarta,“ sagði Ólafur F. Magnússon í samtali og bætti við, „enda lagði ég drjúgan skerf til verndar lífríkis Elliðaánna, þegar ég stöðvaði áform um risahesthúsabyggð fyrir neðan skeiðvöllinn í Víðdal árið 2009. Alla mína tíð í borgarstjórn á árunum 1990-2010 beitti ég mér fyrir varðveislu útivistarsvæðis í Elliðaárdalum og líka í Fossvogsdal.

Ólafur, Hermann og Árni

Fyrri ferð mín í Elliðaárnar í sumar var á 72 ára afmælisdaginn minn 3. ágúst sl. og með mér voru vinir mínir þeir Hermann Valsson og Árni Jörgensen sbr. meðfylgjandi mynd af okkur félögum í blíðunni og birtunni þann dag, enda leit laxinn ekki við neinum flugum sem við reyndum að tæla hann með.

Seinni ferð okkar þremenninga í Elliðaárnar var föstudaginn 23. ágúst sl. í norðangarra og skýjuðu og köldu veðri. Þessi skilyrði hrifu laxinn sem var í góðu tökuskapi og mjög sýnilegur! Þessi dagur var einfaldlega yndislegur ekki síst þegar ég tókst á við lax í Árbæjarhyl sbr. meðfylgjandi mynd,“ sagði Ólafur að lokum.