Fréttir

Seinni fiskurinn var ógleymanlegur

Gylfi Jón Gylfason með vænan urriða

„Við konan mín, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, áttum tvær vaktir í Laxá í Mývatnssveit um helgina. Kvöldvaktina í Geldingaey og morgunvaktina á Arnarvatni,” sagði Gylfi Jón Gylfason og bætti við; „túrinn byrjaði vel því á hlaðinu við Veiðiheimilið hittum við fyrir Jón Eyfjörð, manninn sem kenndi mér að kasta flugu og að veiða í Laxá árið 1986. Við töldum þennan hitting happamerki og héldum bjartsýn að brúnum yfir í Geldingaey. Í ljósi þess að áin var búin að vera fullbókuð í tvo mánuði og ljóst að hver einasti Laxármaður hafði arkað rakleiðis niður á Hagatá og upp í víkin, fórum því uppeftir. Það reyndist rétt ákvörðun, það markaði varla fyrir sporum og grasið meira og minna ótroðið. Við lentum í ævintýri, fundum fisk í Urðarfossi og strengnum þar fyrir neðan. Í vetur hafði ég dundað mér við að hnýta klassískar silungaflugur á jigkróka með kúluhausum. Í boxinu var því á þannig krókum Black sulu, Peter Ross, Black gnat og Teal and black. Urriðinn kolféll fyrir Teal and black nr 16 og við tókum þrjá fiska andstreymis. 

Trúir nostalgíunni skelltum við Rektor númer fjögur undir og næstu þrír fiskar tóku Rektorinn. Þvílíkir fiskar! Ekkert sérstaklega stórir en alveg hreint ævintýralega feitir. Í mannheimum hefðu allir læknar, meira að segja geðlæknar, sett þessa fiska á akút ozempic lyfjakúr. Þeir voru ekkert sérstaklega stórir, sá stærsti 51 cm og sá minnsti 39 cm. Þessir fiskar voru sögulegir. Ingibjörg Bryndís sem hafði aldrei komið þarna áður landaði þremur fiskum í beit á bleiku stöngina sína. Tel rétt að greina frá tilurð þessarar stangar. Ingibjörg Bryndís hefur haldið uppi kenningum á heimilinu að allar stangir sem komu inn á heimilið verði einhvern veginn sjálfkrafa mínar. Það er auðvitað ekkert til í þessu. Niðurstaðan varð nú samt að Júlíus stangarsmiður smíðaði fyrir hana stöng sem á að vera gædd þeirri náttúru að ég myndi aldrei reyna að eigna mér hana. Stöngin er sumsé bleik með svörtu hjólsæti og lykkjum. Það er búið að sérpanta bleika línu á svarta hjólið sem keypt var með stönginni, sem var því miður ekki komin þegar við fórum í túrinn. Við hættum kl 21.00 sæl með að Laxá hefði tekið svona frábærlega á móti okkur.

Daginn eftir fórum við seint út en fundum líkt og daginn áður fisk um miðbik vaktar, í þetta skiptið á Ferjustað og Nýja vaði. Þeir tóku báðir Rektorinn. Sá fyrri var rétt undir 50 sentimetrunum og með sama osempic vaxtarlagið og þeir sem við tókum kvöldið áður. Seinni fiskurinn var ógleymanlegur tók Rektorinn og ég fann um leið að þarna var á ferðinni Dyravörður af stærri gerðinni. Fiskurinn byrjaði á að leggjast og þumbast með smá höggum, trylltist svo, tók roku og hreinsaði út alla línuna og tíu metra af undirlínu að auki. Eftir að hafa náð um það bil helmingnum af línunni, tók hann annað kast og rauk aftur niður á undirlínu. Ég náði fiskinum að lokum inn og Ingibjörg Bryndís háfaði, 60 cm! Þetta var um kl eitt. Við ákváðum að hætta, þessi fiskur var einfaldlega nóg og mikið meira en það. Fyrir mig hafandi ekki veitt þarna í tuttugu ár verður þetta ógleymanlegt,” sagði Gylfi Jón enn fremur.