FréttirVeiðitölur

Ágætur gangur í laxveiði það sem af er sumri

Ágætis gangur er í laxveiðinni og eru flestar ár búnar að skila meiri veiði en á sama tíma í fyrra þó sumstaðar sé svipuð veiði. Þetta kemur fram í frétt á angling.is vef Landssambands veiðifélaga. Í Þverá og Kjarrá eru komnir 552 laxar miðað við 400 laxa á sama tíma í fyrra sem er talsverð aukning. Norðurá er hins vegar á pari miðað við árið 2021 og er komin í 520 laxa, var í 533 löxum á sama tíma í fyrra.

Laxá í Kjós og Laxá í Leir gáfu fína veiðiviku, sú fyrrnefnda 97 laxa og sú síðarnefnda 114 laxa. Langá er komin í 282 laxa, Haffjarðará er komin í 287 laxa.

Miðfjarðará gaf vel í síðustu viku eða 139 laxa og er því komin í 211 á móti 206 löxum í fyrra. Víðidalsá er komin í 129 laxa en hún hafði gefið 97 laxa á sama tíma í fyrra. Laxá á Ásum er komin í 152 laxa en gaf 104 laxa á sama tíma í fyrra. Vatnsdalsá aðeins komin í 55 laxa á móti 60 á sama tíma í fyrra. Það er misjafnt hvort árnar í Húnavatnssýslunum séu að bæta við en sumarið 2021 var þó ansi slakt.

Nú virðirst vera að rofa til í Svartá í Húnavatnssýslu áin komin í sjö laxa eftir tveggja vikna veiði. Jökla er komin í 101 lax. Þar virðast vera fínar göngur, áin er búin að gefa jafnmarga fiska og í fyrra. Stóra-Laxá er enn í mjög góðum gír og komin í 225 laxa. Það er vel rúmlega tvöfalt meira en í fyrra. Upptaka neta á væntanlega stóran þátt í auknum göngum og áhugavert yrði að sjá hvaða afleiðingar það hefði ef minna væri drepið af laxi á veiðisvæðinu Iðu í Hvítá sem er við ósa Stóru-Laxár.