Fréttir

Aðalfundur LV – hverfa á að fullu frá sjókvíaeldi

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga var haldinn á Mývatni 3. – 4. júní. Um var að ræða fyrsta hefðbundna aðalfund sambandsins síðan 2019 þar sem fundir síðustu tvö ár voru takmarkaðir vegna samkomutakmarkana.

Árni Snæbjörnsson var gerður að heiðursfélaga í virðingar- og þakklætisskyni fyrir farsælt og óeigingjarnt starf í þágu sambandsins.

Jón Helgi Björnsson, formaður, fór yfir starfsemi LV á árinu og voru málefni sjókvíaeldis, og sú ógn sem villtum stofnum og lífríkinu stafar af því, fyrirferðarmikil í ræðu hans. Aðalfundurinn samþykkti einnig afdráttarlausa ályktun um þau mál þar sem farið var fram á að stjórnvöld geri tímasetta áætlun um að hverfa að fullu frá sjókvíaeldi.

Fundurinn samþykkti umsókn eiganda Haffjarðarár um aðild að sambandinu.

Ólafur Þór Þórarinsson, fulltrúi Sunnlendinga, var endurkjörinn í stjórn sambandsins. Þá var Þorsteinn B. Helgason, frá Veiðifélagi Miðfirðinga, kjörinn í stjórn sem fulltrúi Norðlendinga en Jón Benediktsson gaf ekki kost á sér en hann á að baki níu ára stjórnarsetu. Aðalfundur og stjórn LV þakkar Jóni fyrir sitt framlag og býður Þorstein velkominn til starfa.


Mynd frá aðalfundi LV á Mývatni 3. – 4. júní 2022