FréttirGreinar

Hvernig verður veiðisumarið?

Veiðimenn taka vorkomunni jafnan fagnandi og sjaldan hafa aðstæður til vorveiða verið betri en í ár. Langflest vötn orðin íslaus strax í byrjun apríl og veðrið hefur verið gott. En aðalvertíðin er yfir hásumarið. Þá vilja veiðimenn ólíkt flestum öðrum hafa þungbúið og rigningu til að tryggja tökuglaðann fisk og nóg vatn og súrefni í ám og lækjum. Nú ætlum við að skoða hver staðan er fyrir sumarið.

Langtímaveðurspár eru á reiki fyrir júní til ágúst. Líklegt er að hiti verði ofan meðallags en ekkert er á spánum að græða þegar veðurlag eða úrkoma er skoðuð. Þess vegna skoðum við eingöngu snjóalög eins og þau eru í dag og það hvaða áhrif snjómagnið getur haft á rennsli ánna í sumar.

Kortið hér að ofan sýnir snjó á loftmynd sem tekin var á laugardag (3. maí). Um hana og almennt lítin snjó var fjallað á Bliku í gær.

Ef við lítum fyrst á vesturhluta landsins þá er snjómagn með minnsta móti á öllu svæðinu. Bæði var snjólétt í vetur og hlýindi í vor hafa nú þegar brætt stóran hluta snjósins til fjalla. Snjóleysið gefur vísbendingar um vatnslítið ár í sumar í flestum ám í Borgarfirði, á Snæfellsnesi og í Húnavatnssýslum. Á Vestfjörðum er öllu meiri snjór og stefnir í ágætis rennsli þar, allavega framan af sumri, sér í lagi á Ströndum þar sem snjómagn virðist vera með meira móti.

Á Norðurlandi er snjóbráð víða uppistaðan í vatnsrennsli allt sumarið. Þar er nú afar lítill snjór í samanburði við undanfarin ár. Líklegt verður að teljast að snjóbráð klárist snemma og vantsþurrð verði í ám þar sem öllu jöfnu er alltaf nægt vatn. Sér í lagi í sjóbleikjuánum fyrir miðju Norðurlandi. Þar gæti vatnshiti líka orðið nokkuð hærri en bleikjan er einnig viðkvæm fyrir því. 

Norðaustanlands er staðan eitthvað betri. Þeim austar sem upptakasvæðið er þeim mun meira er snjómagnið og horfurnar í rennsli þ.a.l. betri. Í ánum í Þistilfirði má þannig búast við ágætis rennsli framan af sumri en þó er líklegt að rennsli verði í minna lagi síðsumars.

Á Austurlandi er staðan önnur. Þar er nægur snjór til fjalla og útlit fyrir gott rennsli og venjulegt hitastig víðast hvar fyrir austan. Nægt vatn ætti að vera í Vopnarfjarðaránum en þær eru nú svosem ekki þekktar fyrir vatnsleysi.

Sunnanlands er leysing víðast hvar búin þegar veiði hefst í eðlilegu árferði og ekki líklegt að lítill snjór hafi teljandi á rennsli vatnsfalla þar, með örfáum undantekningum. Þannig gæti orðið tilfinnanlegt vatnsleysi í Skógá og Þverá í Fljótshlíð. Minni ákoma hefur líka áhrif á grunnvatnsstrauma og lindárnar á Suðurlandi, en erfitt er að meta hversu miklar breytingar verða og hversu langan tíma tekur fyrir þær að koma fram. Það má því búast áfram við því að vatn streymi áfram í Rangárnar líkt og venjulega.

Skoðum nú stöðuna á lónum á hálendinu. Veiðimenn hafa helst áhuga á vatnshæð í Blöndulóni og Hálslóni þar sem veiði spillist í Blöndu og í Jöklu þegar árnar fara á yfirfall.

Á myndinni sést staðan í Blöndulóni eins og hún er í dag, 5. maí. Lónið er í mjög hárri stöðu miðað við árstímann. Ástæðan fyrir því er að hlýtt var í vetur og megnið af vorleysingunni hefur nú þegar skilað sér í lónið. Þrátt fyrir að leysingu sé að mestu lokið og að búast megi við því að hratt dragi úr innflæði í lónið á næstu dögum er óhætt að gera ráð fyrir því að Blanda fari fyrr á yfirfall en í venjulegu árferði. Ef hlýtt verður í veðri og eða úrkomusamt gæti það gerst að áin fari mun fyrr á yfirfall en venjulega.


Í Hálslóni er staðan öllu eðlilegri. Þar er vatnshæðin nálægt meðaltali og leysing varla hafin. Snjómagn er ennþá töluvert á upptakasvæði lónsins og gera má ráð fyrir að það fyllist með venjubundnum hætti í sumar. Það er kannski eitthvað líklegra að áin fari á yfirfall fyrr en í meðalári heldur en hitt.

Þrátt fyrir þessa upptalningu er í raun afar lítið hægt að segja um rennsli ánna í sumar þar sem veðurfarið hefur mjög mikið að segja og spár eru þvers og kruss um það hvernig veður við megum eiga von á að fá í sumar. Snjómagnið gefur okkur þó vísbendingar um að meiri líkur séu á litlu vatni víðast hvar í sumar en venjan er.

Þarf meira að segja held varla pakkinn erkominn fyrir sumarið og auðvitað fyrsta á veidar.is

Sveinn Gauti Einarsson | Bliki