Fréttir

Heldur námskeið um endurhleðslu skotfæra

„Ég er fæddur vestfirðingur frá Suðureyri við Súgandafjörð og flutti í höfuðborgina um 1990,“ sagði Sigurður M Grétarsson sem heldur námskeið í endurhleðslu skotfæra.
„Ég hef stundað skotveiði frá byssuleyfisaldri og var þá grágæsin efst á listanum. Einnig hef ég verið að eiga við ref og mink. Er núna staðsettur í Njarðvík. Ég fékk endurhleðsluréttindin fyrir um þrjátíu árum og kennsluréttindin fyrir um tuttugu árum, síðan er ég búinn að kenna um yfir 300 manns.
Þetta gengur yfirleitt þannig fyrir sig að ég auglýsi reglulega og þeir sem hafa áhuga á að sækja námskeið, setja sig í samband við mig og ég reyni að finna tíma fyrir hvern og einn. Það getur stundum verið flókið þegar margir sækja um í einu. Ég reyni að bjóða mönnum að sitja námskeiðið einir , sem er yfirleitt fyrsti valkostur, en svo er ég líka að kenna hópum. Ég hef verið að fara út á land og kenna þá hóp sem hefur verið smalað saman í þeim landshluta og hef ég mest kennt 22 í einu. Var þeim skipt niður í tvö holl. Maður kynnist auðvitað mikið af skemmtilegu fólki í þessu og sumir hafa endað í vinahópnum. Ég reyni að kenna þetta á léttu nótunum, þó með alvarlegu ívafi, og koma margar veiðisögurnar þegar menn fara á flug. Það hefur farnast mér best að láta nemendur gera hlutina sjálfir (hands on). Þeir læra mest á því. Ég legg upp með að miðað við að einn til fjóra menn séu á námskeiði um 2-3 tíma, sem getur svo teygst. Yfirleitt eru þetta kvöldnámskeið. Eina sem menn verða að koma með með sér er skotvopnaleyfið og góða skapið. Að því gefnu að þeir séu komnir með leyfi frá lögreglu til að sitja námskeiðið. Síðan ef menn klára námið og standast próf að því loknu, fá þeir skjalfesta viðurkenningu sem þeir fara svo með til þess sem sér um skráningu skotvopna í því umdæmi sem við á og fá þá E-réttindi í skotvopnaleyfi. Best að láta það fylgja að ég hef ekki enn hitt einstakling sem ekki var hægt að kenna þessi fræði og eru þetta þó bæði nýgræðingar jafnt og vanir menn sem hafa hlaðið í áraraðir. Þetta eru engin geimvísindi en það þarf að læra að gera hlutina rétt.  Ég lít stundum á þetta eins og fluguhnýtingarnar, sömu „pælingarnar“. Þetta er líka mjög skemmtilegt áhugamál við hliðina á markskotfimi eða skotveiði almennt. Þessu fylgja að sjálfsögðu kaup á tækjum og tólum til að stunda þetta og hafa veiðifélagar oft verið að versla sér þetta og nota saman. Hefur það margsinnis verið sannað að endurhlaðin skotfæri hitta betur en verksmiðju skot. Ég hef líka tekið að mér að vera með kynningar fyrir verslanir og félagasamtök.

Ein góð saga:
Það voru þrír vinir og veiðifélagar á námskeiði hjá mér, og eins og gerist oft í vinahópi þá er smá metingur og samkeppni um hver gerir hlutina best. Þetta voru allir sjómenn. Nema þegar einn er að vikta púður í eitt skothylkið þá tekst honum að sulla aðeins út fyrir hylkið. Þá glymur í einum félaganum. „Jæja!!  Ertu að setja sykur í kaffið??

Áhugamálin fyrir utan skotveiðina má kannski nefna að ég safna munum tengdum seinni heimstyrjöldinni og á orðið gott safn. Einnig er ég að spila í hljómsveitum,, sagði Sigurður í lokin.