BleikjaFréttir

Kominn með veiðidellu á háu stigi

„Okkur feðgunum bauðst að bleita í færum í gær þar sem pabbi minn var með Árblikshúsið,“ sagði Kristinn Óli Kristbjörnsson um veiðiferð í Hlíðarvatn í Selvogi. Við slógum til og brunuðum niðureftir. Þegar ég rölti ofan Botnavík fannst mér skrítinn litur á botninum. Hann var svartur en ekki blá-grár eins og vanalega. Þegar ég færði mig nær áttaði ég mig á að þetta var stærsta bleikjutorfa sem ég hef augum litið.  Allt stórir fiskar, tvö til sex pund sem svömluðu úr og aftur í torfuna.

Mér hafði einhverntíma verið sagt að þegar þetta gerist, leggst hún þarna og er ekki að éta neitt – nema að af og til sá ég hana velta sér í yfirborðinu svo ég hendi þurrflugu undir og pæng – hún tók með látum.  
Við feðgarnir tókum fjórar bleikjur frá 44 cm upp í 58 cm sem er stærsta bleikja sem ég hef veitt og séð koma upp úr þessu vatni með mínum eigin augum.  Restin var svo tekin á pínulítinn blóðorm nr 16.
Arnar Óli er svo heldur betur kominn með veiðidelluna eftir sumarið og er farinn að kasta flugu sem er nokkuð gott fyrir 6 ára gutta,“ sagði Kristinn Óli enn fremur.