Sjötti þáttur: Í veiði með afa og afa – „Þú ert afi 1 og hann er afi 2“
Sjötti þáttur af Veiðin með Gunnari Bender er nú aðgengilegur í myndbandi sem sjá má hér fyrir neðan. Í þessum þætti fer Gunnar að veiða í Hvolsá í Dalasýslu ásamt 9 ára barnabarni sínu Árna Rúnari Einarssyni sem er að taka sín fyrstu skref í veiði. Með þeim í för er hinn afi Árna, Árni Jón Erlendsson, eða eins og Gunnar orðar það: „Hvað er betra en að veiða með afa sínum? það er að veiða með báðum öfum sínum.“
Þættirnir Veiðin með Gunnari Bender eru unnir í samstarfi við veiðar.is sem er nýr frétta- og upplýsingavefur um sport- og laxveiðar í íslenskri náttúru. Á vefnum eru nýjustu fréttir úr veiðinni og því sem þar gerist á hverjum tíma, auk viðtala og frásagna af veiðiferðum, reynslu og upplifun einstaklinga og hópa í veiðimennsku.
Gunnar Bender ritstjóri er annálaður áhugamaður um stangveiðar í ám og vötnum sem og auðvitað hafi, og er með áratuga reynslu af sportveiði og veiðimennsku. Gunnar hefur ferðast um landið árið um kring og hitt sportveiðifólk og aðra áhugasama um veiðar og útivist.
Í þessum ferðum sínum dreifir Gunnar m.a. Sportveiðiblaðinu, einu mest lesna og virtasta tímariti um laxveiðar á Íslandi en Gunnar stofnaði til útgáfunnar fyrir 40 árum og hefur verið þar ritstjóri og útgefandi síðan. Veiðiþætti Gunnars þekkja margir en hann hefur framleitt slíka þætti um veiðar í villtri náttúru Íslands og frá helstu laxveiðiám landsins. Nokkrir af veiðiþáttum Gunnars eru aðgengilegir á veidar.is og á YouTube rásinni Veiðar.
Hér má horfa á sjötta þáttinn af Veiðinni með Gunnari Bender.
