„Það var hæg breytileg átt og stillt veður með smá súld inn á milli,” sagði Daniel G Haraldsson þegar hann fór að veiða á Úlfljótsvatni með vini sínum. „Dagurinn byrjaði með smá dramatík í veiðinni þar sem ég var fisklaus í júlí þetta árið fyrir þennan dag og hefur það aldrei gerst síðan 2007 á mínum ferli. Mér var mikið létt þegar ég setti í fyrsta fiskinn en missti hann mjög snöggt og þá færi ég mig um smá spöl og líður ekki á löngu þar til ég set í annan og missi hann líka eftir smá viðureign. Þá setur félagi minn og lærlingur í fisk og þá á sama tíma set ég í þann þriðja og missi hann um það bil þegar félagi minn háfar sinn en sá fiskur var fljótur að hoppa úr háfnum hans og segja bless eftir klaufaganginn í félaga mínum en þrátt fyrir það þá fór hann heim með bros á vör.
Eftir að ég var búinn að missa þrjá í röð og allt að lifna við fyrir framan mig þá stóð mér ekki á sama, þar sem ég byrjaði með sink tip línu fyrir línu nr.7 og þá tók ég til þess ráðs að fara upp í bíl og skipta um stöng og tefla fram stöng fyrir línu nr.6 og hrein flotlína undir. Ég arka aftur úti og líður ekki á löngu þar til ég set í þann fjórða og næ honum að lokum og þá gat ég andað léttar. Ég færi mig neðar á svæðinu sem við vorum að veiða og næ að krækja upp tveimur í viðbót í leiðinni og gerði þá mikið grín af því að ég væri með 50% nýtingu í aflabrögðum og var það nokkurn veginn útkoma dagsins. En óhöppin gera ekki boð á undan sér.
Minn sómasamlegi veiðifélagi Ómar Geirsson tók sig til og ætlaði að færa sig um nokkur skref en áttaði sig ekki á hraunbarðinu við fætur hans og snýr sér á hæl og dettur framfyrir sig með svolitlum göslagangi en var stálheppinn að blotna aðeins á ermunum og gat því haldið veiðum áfram. Sá eini sem varð bilt við þessa unaðslegu sunddýfu reyndist vera sími viðkomandi og var hann færður til þerris.
Eftir byltuna færir félagi minn sig ofar þar sem hann fannst hann vera öruggur frá svona ævintýrum.
Við það dúndra ég línunni út og læt sökkva vel og þá er flugan negld og það er tekið strauið langt út á vatn, langt út á undirlínu og varð það svo næstu mínúturnar áður en mér tókst að ná kastlínunni aftur inná hjólið. Eftir dágóðann tíma þá náði ég honum nær og var þetta feitur og pataralegur urriði og honum var landað með sóma og fyllti hann hálfann pokann hjá mér.
Ég náði svo fjórum bleikjum í viðbót og voru þetta fínar bleikjur 1,5 til 2 pund og var þetta orðinn hinn ágætasti afli. Síðan fór að gjóla smá og rigna á eftir og þá var allt meira og minna búið. Ég endaði daginn á því að leiðbeina lærlingnum mínum og koma með úrbætur fyrir næsta veiðtúr og þá yrði með í för vaðstafur fyrir hrakfallabálka, flugnanet og dökkteip til að teipa fasta ósiðaða kasthönd óreynds lærlingsins.
Mjög góður og eftirminnilegur dagur að baki og vonandi gefst tími fyrir fleiri svona daga von bráðar,” sagði Daniel í lokin.