FréttirGreinLaxveiðiSportveiðiblaðið

Fáar bækur fleiri blöð

Hér er ég með langþráða laxinn úr lokaferðinni sem tók Hulk nr 16. Þennan fékk ég í Hornhyl

Jólin var tími veiðibóka en ekki lengur, fáar komu út, ein og ein, en tvö öflug veiðiblöð; Sportveiðiblaðið og Veiðimaðurinn komu úts rétt fyrir jólin. Kíkjum aðeins á grein Maríu Hrannarr Magnúsdóttur úr hnausþykku Sportveiðiblaðinu:

„Nú eru allar fjórar ferðir mínar í Langá í sumar að baki og ég komin aftur til byggða. En ég hef undanfarin tvö ár farið fjórar ferðir í Langá og af þessu mætti dæma að Langá sé mín uppáhaldsá. Langárgyðjan var hins vegar ekki alveg með mér í sumar og gekk veiðin ekki eins og ég hefði viljað. En svona er það bara stundum. Veiðin hefur verið krefjandi þar í sumar eins og í svo mörgum öðrum ám þetta sumarið. Fyrsta ferðin sem ég fór í var í Hjónahollið sem var 20.-22. ágúst. Við vorum þar í 19 stiga hita og sól allan tímann. Það er dásamlegt á bakkanum en ekki jafn gott við veiðarnar og laxinn sennilega bara í móki. Það komu ekki nema að mig minnir 5 laxar á land í því holli samt mest allt mjög vant veiðifólk. Við Guðni minn fórum með öngulinn í rassinum heim úr þessari ferð en áttum góðar stundir saman á bakkanum að njóta góða veðursins. Félagsskapurinn var mjög skemmtilegur og gaman að kynnast öðrum veiðihjónum. Næsta ferð var Kvennanefndarferðin á vegum SVFR. Það er alltaf mikil gleði og eftirvænting í þessum ferðum. Reynt var að halda vonum niðri en það var óþarfi þar sem þessar snilldar konur náðu á land 14 löxum, og þar af einn maríulax, sem er bara nokkuð gott miða við önnur holl á undan og alltof gott veður.

Hér er ég alsæl með hrygnu úr Ármótafljóti sem tók í 5 kasti í Kvennanefndarferðinni. Hana tók ég á Kampavín nr. 14 sem er fluga sem var sérhönnuð fyrir kvennanefndina

Ég fór sem betur fer ekki með öngulinn í rassinum úr þessari ferð þar sem ég náði einum á land sem betur fer. Ég setti í lax í 5 kasti er við byrjuðum og var mikil gleði hjá okkur vinkonunum með það. Helga dreif sig svo út í hylinn og náði þessum fína hæng og stuttu seinna hrygnu. Ferðin byrjaði því mjög vel hjá okkur og væntingin eftir því en svo gerðist bara ekkert meira hjá okkur. Næst var það kvennaferðin með Hrygnunum 3.-5. september. Sama málið var með veðrið til að byrja með en svo fór að rigna og við héldum að við værum í gulli en það þarf meira til. Það komu samt 17 laxar á land og þar af einn maríulax sem var mjög ánægjulegt. Mér gekk bara ekki allt of vel í þessari seinni ferð. Var ekki í góðum gír en fékk samt skemmtilegar tökur sem mér tókst svo að klúðra, sem eru samt skemmtilegar sögur, og aðrar tökur sem bara tókust ekki. Ef allar þessar tökur sem ég fékk og klúðraði eða ekki hefðu endað með laxi á land hefði ég nú verið mjög ánægð.

Ein þeirra er ansi skemmtileg en við Helga vorum í Stangarhyl og var ég að vendikasta og eitthvað klúðraðist það hjá mér þannig að mér tókst að vefja línunni um toppinn á stönginni og þar var allt fast. Ég byrja að vandræðast við að losa þetta þegar ég sé lax stökkva og svo stekkur hann aftur og þá æpir Helga „hann er á“. Við sáum stirna á tauminn úr honum í sólinni en þar sem allt var fast á stönginni var lítið hægt að gera og fór hann af. Einnig missti ég einn sem var ansi duglegur að höggva og fékk ég fluguna með einn krókinn hálf útréttan til baka. Þetta var samt enginn risi heldur bara frekar góður hökkvari. Þessar ferðir snúast samt alltaf um gleði og hana vantaði svo sannarlega ekki í þessi skipti heldur. Nú er komið að seinustu ferðinni minni og var það lokunin. Lokar árnefndin ánni. Í þessari ferð var veðrið alger andhverfa við hinar ferðirnar en það var leiðinda rok og úrhellis rigning. Markmið ferðarinnar var að hafa gaman saman og ná veiðitölunum upp fyrir 700 laxa. Það tókst svo sannarlega enda menn og konur með í ferð sem nánast þekkja laxana í ánni með nafni og vita hvað þarf að bjóða þeim. Við náðum heildar tölunni í 714 laxa. Það náðust sem sagt 29 laxar á land í þessari ferð ásamt 2 silungum. Einnig náðist að gera fluguna Hulk að jafn aflahárri flugu og Green But. Ég átti sko ekki heiðurinn að þessari háu aflatölu en lagði mitt af mörkum og náði einum á land á fluguna Hulk og var það mikil gleðistund. Nú er bara að bíða eftir næsta sumri og hafa fulla trú á að það verði gott veiðisumar.“