BækurFréttirVeiðistaðalýsingar

Bók um veiðistaðalýsingar í Mývatnssveit og Laxárdal

Á bak við útgáfuna standa sjö forfallnir unnendur urriðasvæðanna í Laxárdal og Mývatnssveit sem hafa myndað mikil tengsl við ána og umhverfi hennar, náttúruna, lífríkið og mannfólkið sem þar býr. Með þessari útgáfu vilja þeir koma til lesenda upplifun sinni af Laxá og umhverfi hennar, þekkingu á veiðistöðum og miðla til veiðimanna og náttúruunnenda sögum af brautryðjendum stangveiða við Laxá og brotum af því fjölskrúðuga mannlífi sem lifað hefur verið á bökkum árinnar.

Lýsingar á veiðisvæðum og veiðiskapur eru meginþráður bókarinnar en sögur af mannfólki við ána og fróðleiksmolar af bændum og samferðamönnum þeirra á ýmsum tímum gefa hverju svæði aukið gildi. Þeir Sigurður Magnússon og Ásgeir H. Steingrímsson lýsa veiðisvæðunum í Mývatnssveit og Laxárdal af einstakri þekkingu og innsæi. Lýsingunum fylgja 18 ný veiðikort með veiðistaðamerkingum og frábærum loftmyndum Jóns Aðalsteins Þorgeirssonar ásamt myndum af veiðimönnum í glímu við hinn sprettharða urriða sem í Laxá býr. Veiðistaðalýsingar, kort og myndir eiga eftir að veita veiðimönnum dýpri og betri innsýn í undraheim Laxár og búa þá vel undir stefnumót við urriðann. Jón Aðalsteinn og Baldur Sigurðsson segja sögu urriðaveiða frá landnámi til okkar daga, rita þætti af veiðum heimamanna og gesta þeirra, þar sem fjallað er um veiðibúnað, veiðiaðferðir og flugur í 150 ára sögu nútímastangveiða við Laxá. Gísli Már Gíslason líffræðingur ritar afar fróðlegan kafla um lífríki Laxár og Jón Benediktsson bóndi á Auðnum fjallar um Laxárdeiluna frá nýju sjónarhorni og rifjar upp æskuminningar sínar í Laxárdal.

Loks er endurbirt kver Stefáns Jónssonar, Gengið með ánni, frá 1974. Í bók sinni Lífsgleði á tréfæti segir Stefán Jónsson um Laxá:
„Ég veiddi þar fyrir 36 árum, og síðan ber hugurinn mig einatt þangað þegar hann hvarflar að veiðiskap þótt hann kunni að byrja annars staðar.  Þar skilur hann mig eftir.  Síðan kynntist ég ánni ár frá ári, mývarginum, og urriðum hennar sem eru ekki venjulegir silungar, og öndunum sem eru ekki vanalegar endur og þeim Mývetningum og Laxdælum sem eru heldur ekki með öllu venjulegt fólk, og griðarsáttmálanum milli allra þessara tegunda sem eiga líf sitt undir að sé haldinn.“    

Útgefandi: Veraldarofsi ehf.
Bókin er 306 blaðsíður í stóru broti 25x25sm, bókina prýðir mikill fjöldi mynda og hún öll prentuð í lit.
Ritstjóri er Jörundur Guðmundsson.
Sjá nánar á: www.laxarbokin.is.