Sá stóri var stór
„Árið byrjaði virkilega vel hjá mér. Fór í geggjaða ferð á vegum Fishpartner til Austral Kings í Patagonia Chile,” sagði Gísli Kristinsson þegar við spurðum um veiðisumarið síðasta og árið 2025.
„Þetta er í annað skiptið sem ég fer í þessar búðir og 2024 fékk ég 30 punda lax og missti nokkra. En það sat í mér að fá stærri fisk. Og því kom ég aftur að ári og í febrúar 2025 fórum við aftur vel valinn hópur af mönnum. Þetta reyndist vera með betri túrum sem ég hef farið í en ég landaði tveim löxum. Fyrri laxinn var 26 eða 27 pund. Ég man það ekki alveg vegna þess að sá seinni fékk alla athyglina. Sá var 107 cm og 40 pund slétt. Sá byrjaði mjög rólega og hélt ég á tímabili að þetta væri bara silungur. Fór að gera lítið úr fisknum. Svo þegar nokkrar mínútur voru liðnar fór ég að gera mér grein fyrir að þetta væri mjög stór fiskur. Eftir um 30 mín kom hann á land og gleðitárin runnu niður. Hamingjan sem fylgir svona fisk og vera með geggjaðan félagsskap skemmir alls ekki fyrir en góðvinur minn Sigurður Duret var með mér og var daginn áður nýbúinn að missa einn fisk á sama stað.
Það er alls ekki gefið að ná fiskum á land þarna. Þetta er djúpt og mikið um „treelogs” (trjádrumba) út í ánni.
Menn missa flesta fiska sem taka þarna en það gerir þetta enn meira spennandi og tilfinningaríkara þegar fiskurinn er kominn í háfinn.
Þetta var klárlega toppurinn í veiðinni 2025 hjá mér og 2026 leggst vel í mig. Ég er alltaf rólegur í bókunum til að byrja með. Er með fastann vor- og hausttúr í Tungufljót við Kirkjubæjarklaustur. Hausttúrinn þar hefur verið góður við mig. Fékk 8 fiska í ár í þeim túr og ég fór að nota Euronymphing meira og það þræl virkaði. Ætla að tileinka mér þá veiðiaðferð meira. Gaman að taka 10-15 punda sjóbirtinga á 11feta 4wh.
Fer árlega í Aðaldalinn en það var rólegt í ár því miður. Mývatn var mjög hlýtt og var Aðaldalurinn undir væntingum. Er ekki búinn að ákveða mig hvort ég fari aftur í ár en mögulega færi ég túrinn fram í ágúst eða september jafnvel.
Annar hápunktur á árinu var að kona mín er orðin veiðisjúk og fór í sinn fyrsta veiðitúr með mér í Ytri-Rangá júní. Þar fékk hún Maríulaxinn sinn 80 cm hryggnu í Ægissíðufossi. Núna er ekki aftur snúið hjá henni 🙂
Svo ég ég með fleiri áhugamál. Ég er að keppa í PRS (Precision Rifle Series) en það er nákvæmni skotfimi. Ég náði á fyrsta heila keppnisárinu mínu að landa Íslandsmeistaratitli og endaði í 4. sæti á fyrsta Pro shooter mótinu mínu. Það þykir verulega góður árangur með ekki meiri reynslu en rúmt ár í greininni. 2026 má koma með látum,” sagði Gísli Rúnar að lokum.

