Fréttir

Veisla í Fjarðará á Borgarfirði eystra

„Ég átti frábærar stundir við Selfljót og Fjarðará á Borgarfirði eystri fyrir fáum dögum,“ sagði Ásgeir Ólafsson sem var á veiðislóðum fyrir austan. „Var að prófa svæði 2 í Selfljótinu í fyrsta skipti og var með mjög hóflegar væntingar. Var þarna fyrir hádegi á frídegi verslunarmanna og lenti í mjög skemmtilegri veiði. Landaði 9 sjóbleikjum (flestar 2-3 pund) og einum sjóbirting. Tók 3 fiska á grillið en hinir fengu líf. Svæðið er mjög fallegt og ég mun pottþétt koma þangað aftur. Daginn eftir átti ég svo hálfan dag í Fjarðará á Borgarfirði eystri og lenti þar í hálfgerðu ævintýri. Var í dúndur sjóbleikjuveiði þegar stór lax stekkur á veiðistaðnum. Á þessum tímapunkti var ég búinn að landa 11 sjóbleikjum frá tæpum 2 pundum upp í rúmlega 3 pund. Laxinn væni æsti mig upp og ég bara varð að reyna. Tæpum klukkutíma síðar landaði ég glænýjum 80cm hæng og morguninn fullkomnaður. Allir fiskarnir fengu líf enda ég ekki á heimleið. Kíkti aftur í morgun (miðvikudag) í Fjarðará á Borgarfirði eystri og landaði 9 sjóbleikjum og litlum 55cm laxi. 

Mæli hiklaust með þessum veiðisvæðum enda fegurðin mikil og fiskurinn til staðar,“ sagði Ásgeir enn fremur.