FréttirGreinar

Mikið af fiski en hann er tregur að taka

„Eftir sviptingar gærkvöldsins varðandi veiðistaði tökum við félagarnir skyndiákvörðun um að fara í Leirvogsá, tilgangurinn var að nýta þá frítöku og ráðstafanir sem gerðar höfðu verið og kvöldið endaði með því að við báðir fórum brosandi á koddann spenntir fyrir morgundeginum,“ sagði veiðimaðurinn Jóhann Ólafur Björnsson í samtal, en hann var í Leirvogsá í gær og bætti við.

„Heiðar Þór hafði nokkuð góð kynni af ánni og stundaði hana veiðileysissumarið 2019 þar sem aflatölur enduðu með tveim löxum og einum sjóbirtingi, auk þess hafði hann góð kynni af vorveiði í Leirvogsá.  Jóhann hafði heyrt þessa aflasögur og gæti sagt þær bæði afturábak og áfram og var því spenntur fyrir því að prófa. 

Dagurinn var tekinn snemma en þó vorum við ekki mættir fyrr en hálftími var liðinn af veiðitíma vegna aksturs og morgunævintýrum barna Jóhanns. Farið var í bæinn í blíðskaparveðri, hálfskýjað 10°C og stilla. Leikar hófust við gömlu brú þar sem ekki var vart við fisk þrátt fyrir aflatölur liðinnar viku, gaf þetta góða mynd af vatnsstöðu í Leirvogsá sem var heldur til lægri en venjast má í vorveiði. Því var stefnan tekin beint í Helguhyl þar sem áðurgreind reynsla hafði skilað fisk í lágri vatnsstöðu, sáu báðir veiðimenn til fisks, urðu varir á enda stanganna en fiskurinn var ekki nógu gráðugur í flugunna. 

Því runnu öll vötn í Birgishyl þar sem sást undir eins að hylurinn var pakkaður af fiski, því var meiri tíma eytt þar en venjulegum mönnum þætti ofgert.  Þrátt fyrir að hægt væri að sjónveiða hylinn og tugir flugna reyndar varð sagan sú sama og í Helguhyl þar sem eitthvað var átt við agnið en hann festi sig ekki á. Var því gert hlé á veiði og nestinu andað að sér. Af illri nauðsyn var því Birgishylur yfirgefinn og haldið í Móhyl.

Móhylur vakti sömu lukku en engar urðu aflatölur þaðan þrátt fyrir endurteknar tilraunir. Eftir það voru þónokkrir staðir skannaðir en enginn vakti jafnmikla von í brjósti og Helgu – og Birgishylur. Var því eytt slíkum tíma þar sem hefði valdið því að minni menn hefðu gefist upp, eftir tæpa 9 tíma af veiði sönnuðust kjörorð okkar veiðifélaga að ástundun er betri en veiðihæfileikar. Ákvað einn fiskurinn í Birgishyl að breyta út af laginu og festa sig á forláta Watson Fancy púpu sem stuttu áður hafði verið komið að í róteringunni í boxinu þar sem aðrar eftirlætis flugur höfðu ekki skilað árangri . Þar hófust leikar þar sem fiskurinn reyndist ekki með öllu sáttur að hafa látið blekkjast, var þetta nokkuð óhefðbundin barátta þar sem Heiðar var á flæðiskeri staddur, standandi á grjóti skammt frá árbakkanum. Reyndist hinn blekkti ekki vera hefðbundinn mótherji sem tekur skemmtilega langa, stutta og djúpa spretti heldur reyndi hann að bregða sér í hvert einasta skúmaskot sem í hylnum var að finna. 

Jóhann var búinn að elta fiskinn upp og niður bakka hylsins með háfinn án árangurs þar sem að fiskurinn beitti bellibrögðum, ásældist hann sérstaklega að skorða sig milli bakka og þess grjóts sem Heiðar stóð uppá. Til þess að beita réttu mótbragði þurfti Heiðar að koma sér af grjótinu en endaði ekki betur en að hann féll við og bjóst við að fiskurinn hefði komist undan þar til að fagnaðaróp heyrðust í Jóhanni, horfði Heiðar á Jóhann furðulostinnn og sá mótherjann í háfnum. Þar sannaðist orðatiltækið að fall er fararheill því við það varð mótherjinn fyrir réttu átaki til þess að losna úr þeim skorðum sem hann hafði komið sér í og veitti Jóhanni það svigrúm sem til þurfti til að snúa á mótherjann og koma honum í háfinn.  Uppúr krafsinu hafðist gullfallegur 52 cm sjóbirtingur sem fékk konunglega meðhöndlun í höndum þeirra félaga.  Var honum ekki gefið nokkuð súrefni og haldið blautum allan tímann og af einskærum klaufaskap við mælingu í háfnum fann hann sér leið af sjálfsdáðum útúr háfnum að lokinni mælingu. 

Þótti þeim félögum ekki mikið um muna þar sem fiskurinn hefði hvort eð er fengið að synda sína leið örfáum sekúndum síðar, fengu þeir félagar úr þessari baráttu þann kraft sem til þurfti til að klára daginn og veiða nokkra staði í viðbót án teljandi árangurs, þó svo að fiskurinn hafði skilað sér að fullu aftur í Birgishyl nokkrum mínútum eftir baráttuna. Luku veiðimenn deginum með bros á vör og þóttu sig með engu sviknir þrátt fyrir misjöfn aflabrögð,“ sagði Jóhann Ólafur enn fremur.