Laxarnir úr Dýrafirði sem náðust í Haukadalsá
Báðir sjókvíaeldislaxarnir sem ég (Jóhannes Sturlaugsson) veiddi í Haukadalsá nóttina 14. ágúst síðast liðinn reyndust hafa sloppið úr kví í Dýrafirði. Sá stærri þeirra var 88,0 cm langur og 7,75 kg þungur og mynd af honum fylgir þessari færslu og sá minni var 81,5 cm langur og 5,56 kg þungur. Þriðji eldislaxinn (76,5 cm og 5,80 kg) skilaði sér í rannsókn mína frá ádrætti sjálfboðaliða NASF í Haukadalsá 15. ágúst og hann var sömuleiðis úr kví úr Dýrafirði. Allir þessir eldislaxar eru því úr kví í Dýrafirðinum án þess að Marvælastofnun hafi enn greint frá því hvort það er títtnefnt götótt kví Arctic Sea Farm eða einhver önnur. Þessar upplýsingar rannsóknar minnar eru á grunni erfðagagna sem Matís vann fyrir mig sem gerðu kleift að rekja uppruna laxanna úr rannsókn minni á grunni gagna sem Hafrannsóknastofnun og MAST halda utan um yfir norska sjókvíaeldislaxa í kvíum hér við land. Sérlega mikilvægt var að fá þær fram svo hægt væri að taka á vandamálinu ekki síst sjókvíaeldismegin hvað varða slysasleppinguna sem að baki býr þ.m.t. til að knýja fram hvað útskýrir þá ærandi þögn sem ennþá umlykur Matvælastofnun (MAST) og sömuleiðis Hafrannsóknastofnun okkar ráðgjafastofnun hvað varðar náttúruvernd á laxi. Þar vísa ég til þess að um skeið hafa legið frammi upplýsingar um götótta kví í Dýrafirði án þess að þessir aðilar hafi komið á framfæri hve mikið vantaði af laxi í kvína þegar lokið var við að slátra upp úr henni 6. júlí í sumar. Niðurstaðan nú kallar á að upplýsingar um umrædda slysasleppingu séu opinberaðar strax en þær upplýsingar hefði að sjálfsögðu átt að vera búið að birta. Þær upplýsingar sem ég kynni hér um uppruna fyrstu eldislaxanna þriggja sem veiddust í Haukadalsá eru fyrstu tiltæku vegvísarnir er varða slysasleppinguna/slysasleppingarnar sem strokulaxarnir koma úr sem nú eru að ganga í ár landsins. Reynslan frá 2023 kennir okkur að stærsti hluti eldislaxa sem slapp í sumar úr kvíum gengur upp í árnar í september en einnig í verulegu mæli í október og allt fram í nóvember líkt og rannsókn mín í Fífustaðadalsá í Arnarfirði sýndi 2023. Nú ríður á að við fáum strax frá okkar ríkisreknu forsjáraðilum sjókvíaeldisins (MAST; Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa) um það hve margir norskir eldislaxar eru taldir hafa sloppið úr þeirri kví sem hér um ræðir.