Í gær héldu feðginin Elma Ísaksdóttir og Ísak Örn Þórðarson á Ungmennadag Stangaveiðifélags Reykjavíkur í Elliðaánum.  Elma sem er einungis 11 ára er nýbyrjuð að æfa fluguköstin og var því að kasta flugu í rennandi vatn í fyrsta sinn. „Við urðum strax vör við mikinn fisk enda er áin gjörsamlega pökkuð af laxi!“
Það var svo í veiðistaðnum Hólshyl þar sem að hlutirnir gerðust. Það er gaman að segja frá því að eftir að Elma hafði kastað þá sagði hún, „Pabbi, ég er svo stressuð yfir því hvernig ég á að halda á fiskinum.“
Pabbinn svaraði: „Þú verður nú að byrja á því að veiða fisk áður en að þú ferð að pæla í…“ og þá stekkur hann með látum á svartan Frances nr.18 sem Elma er að strippa inn. Þá heyrðist í stelpunni, „pabbi, þú jinxaðir þetta alveg!“ Elmu tókst svo að landa laxinum eftir góða baráttu og sleppti svo fisknum að sjálfsögðu.
Þau feðgin voru afar glöð með daginn og þakka Stangaveiðifélagi Reykjavíkur fyrir frábæran viðburð.