Viðtal við Snorra Stein
Ísland er að hefja keppni á EM í handbolta í dag og Sportveiðiblaðið birti viðtal við Snorra Stein Guðjónsson fyrr í sumar. Eggert Skúlason tók viðtalið fyrir blaðið og ætlum að birta brot úr viðtalinu hér á veidar.is. Evrópumótið er að byrja og væntingar til liðsins eru töluverðar. Áfram Ísland!
„Ég er á þröskuldinum”. SPORTVEIÐIBLAÐIÐ – viðtal Eggert Skúlason:
„Ég hef mikinn áhuga. Ég er á leiðinni að verða alvöru veiðimaður. Þetta togar rosalega í mig og ég hef mikinn áhuga. Ég byrjaði mjög ungur að veiða í Þingvallavatni en afi átti þar sumarbústað og ég gat staðið heilu og hálfu dagana og kastað í vatnið og veitt murtu. Að mörgu leiti er ég enn á þeim stað. Ég er svona á þröskuldinum að fara að henda mér út í þetta af miklum krafti. Veiðidellan alveg kraumar í mér,“ segir landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson þegar hann ræðir sinn veiðiáhuga.
Snorri Steinn, eins og margir af okkar fremstu íþróttamönnum, hefur búið lengi erlendis þar sem hann hefur stundað sína íþrótt, handboltann sem atvinnumaður. Þýskaland, Danmörk og Frakkland voru áfangastaðir hans þau fimmtán ár sem hann var í atvinnumennsku og spilaði á þeim tíma 257 landsleiki fyrir Ísland. Nú er hann fluttur heim og raunar fyrir nokkrum árum. Hann tók að sér karlalið Vals og gerði þá að Íslandsmeisturum í tvígang ásamt öllum hinum titlunum og kynnti um leið til sögunnar þennan hraða og orkumiklahandbolta sem Valur spilaði svo skemmtilega undir hans stjórn og lagði án efa grunninn að Evróputitlinum sem Valur hampaði undir stjórn Óskars Bjarna Óskarssonar, arftaka Snorra Steins.
Snorri Steinn Guðjónsson er eitt af stóru nöfnum þegar kemur að íslensku íþróttalífi, síðustu áratugina. Var stórt númer í gullaldarliði Íslands sem vann til verðlauna á alþjóðlegum stór mótum. Fyrst var það á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008, þegar Ísland lék til úrslita og fékk silfur eftir tap fyrir Frakklandi og svo brons á Evrópumeistaramótinu í Austurríki, árið 2010. Þar vann Ísland Pólverja 29-26 í leik um bronsið. Snorri Steinn á báðar þessar medalíur en þær eru þær einu sem íslenskt landslið hefur unnið í boltaíþrótt á alþjóðlegu stórmóti, eftir því sem Sportveiðiblaðið kemst næst.
Í dag er Snorri Steinn landsliðsþjálfari karlaliðs Íslands í handknattleik. Hann hefur farið með landsliðið á tvö stórmót til þessa og framundan er það þriðja í janúar. Þá mun Snorri Steinn taka þjóðina á herðarnar og halda til Kristianstad í Svíþjóð og leiða strákana okkar á EM 2026. Fyrsti leikdagur er 16. janúar þegar Ísland mætir Ítalíu. Í riðlinum eru einnig Pólland og svo blessaðir Ungverjarnir sem oft hafa gert okkur skráveifu á stórmótum. Auðvitað hafa örlaganornirnar séð til þess að síðasti leikurinn í riðlinum er við Ungverja. Það verður stóri úrslitaleikurinn fyrir okkur og mun væntanlega ráða því þegar upp verður staðið hversu langt við komumst í mótinu. Við spilum við Pólverjana þann 18. og svo eru það Ungverjarnir þann 20. janúar.
Að vera landsliðsþjálfari er 24/7 vinna. Þó svo að leikirnir og æfingar séu ekki margir þá er að svo mörgu að huga. Ástand leikmanna, skipulag og fleiri hlutir en Sportveiðiblaðið getur nefnt á nafn. „Já. Það er alveg rétt. Þetta er eitthvað sem maður er stöðugt að hugsa um og skipuleggja. Eini staður inn þar sem ég hugsa ekki um handbolta er þegar ég kemst til að veiða og það er eitt það besta sem ég kemst í. Tæmi hugann og er bara einn með sjálfum mér eða elsta stráknum mínum, Bjarka og við erum saman að veiða.“
Snorri Steinn er einn af þessum veiðiáhuga mönnum sem er sjálfsprottinn. Það var enginn í kringum hann sem hvatti hann til að veiða, eða hélt sportinu að honum. Hann hafði bara þessa þörf sem svo margt ungmennið finnur innra með sér. „Ég gat staðið við Þingvallavatnið og veitt murtu allan daginn. Ég fór bara inn í bústað til að fá mér brauðsneið eða eitthvað þegar maður varð svangur. Ég hirti allar þessar murtur til að geta talið þær í lok dags. Stundum urðu þær fimmtíu eða jafnvel hundrað. Þessi áhugi er enn til staðar
og ég er svona alveg á brúninni með að gera þetta að alvöru áhugamáli.“
Pabbi Snorra er hinn landsþekkti sjónvarps- og íþróttafréttamaður Guðjón Guðmundsson, eða Gaupi. Hann er hættur að vinna, því miður fyrir margt íþróttaáhugafólk. En Snorri segir að pabbi sinn og mamma hafi aldrei verið með mikinn veiðiáhuga. Hann er hins vegar þakklátur fyrir hversu oft þau fór austur að Þingvallavatni og gáfu honum þennan tíma til veiða eins og hann lysti. Snorri Steinn segir að helsta tenging hans við veiði hafi verið og sé enn í dag að horfa á sjónvarpsþættina Sporðaköst…
… Að landa verðlaunum á stórmóti í handbolta er þrautin þyngri. Kannski er það ekki ósvipað og að landa þeim stóra í lax- eða silungsveiði. Þegar líður á mótið í handboltanum verða leikirnir sífellt stærri og misstígi menn sig er draumurinn úti. Það er eins með stórlaxinn. Aldrei er hættan meiri en á lokametrunum. Það má ekki missa einbeitinguna og freista þess að draga hann á land áður en rétta augnablikið rennur upp. Stærð og styrkur þessara fiska gerir það að verkum að lokahnykkurinn þegar þetta er að kárast er hættulegastur. Við þær aðstæður hafa margir stórlaxar tapast. Fyrsta verkefnið í janúar er að setja í hann, sem sagt komast í milliriðil, en þeir verða tveir. Tvö efstu liðin í hvorum milliriðli leika svo um verðlaunasæti. Sigurvegarar í undanúrslitum leika um gullið. Tapliðin leika um bronsið. Það eru þessir leikir sem alla Íslendinga dreymir um að við spilum. En til þess þarf allt að ganga upp og klókindi og heppni þarf líka að vera í liði með okkur. Sjáum hvað setur. Það er fátt skemmtilegra en síðari hluti janúar þegar skammdegið er hvað mest, að horfa á strákana okkar á stóra sviðinu.


