Svona lítur mannvirkið út /Mynd: Magnús Magnússon
Fréttir

Veiðifélag Miðfirðinga snöggir til gegn vágestinum

Veiðifélag Miðfirðinga hefur strax gripið til aðgerða gegn eldislöxunum sem nú virðist herja á laxveiðiár og enginn veit hvaðan koma. Enginn kannast við að hafa misst þessa laxa út kvíum hjá sér og greip Veiðifélag Miðfjarðará strax til aðgerða. Búið er að setja öflugan grjótgarð neðarlega í ánni sem varnar eldislaxinum uppgöngu í ána.

Í pistil sem formaður Veiðifélags Miðfjarðaár sendi félagsmönnum rakti hann ástæður þess að farið var í þessa aðgerð. Sú fyrsta var að verja megin vatnasvæði fyrir eldislaxi með tilheyrandi sjúkdómahættu og erfðablöndun. Í öðru lagi að vernda veiðigæði meginhluta árinnar út líðandi veiðitímabil. Í þriðja lagi að sýna samstöðu í orði og verki og um leið höfum við hugsjón og ástríðu þegar kemur að Miðfjarðará og villtum laxastofnun hennar og við viljum vernda hann, segir Magnús Magnússon formaður Veiðifélags Miðfirðinga í bréfinu til félagsmanna meðal annars.

„Við fórum í þessa aðgerð aðfaranótt föstudags eftir neyðarfund með Landssambandi Veiðifélaga og í samráði við leigutaka og eftir ráðgjöf fiskifræðinga,“ segir Magnús Magnússon formaður Veiðifélags Miðfirðinga í samtali um aðgerðina í Miðfirði til að stoppa þennan vágest sem enginn vill fá í árnar til sín.

Næstu dagar verða fróðlegir, veiðitíminn stendur ennþá yfir og ekki er nóg að eldislaxinn herji á árnar heldur gerir hnúðlaxinn það líka. Fleiri veiðifélög eru að skoða að grípa til aðgerða.

Veiðifélag Miðfirðinga með stórtæk tæki og gerði garð til þess að eldislaxinn komist ekki í ána /Mynd: Magnús Magnússon