Náttúrufræðistofnun hefur lokið við að meta viðkomu rjúpnastofnins sumarið 2024. Það var gert með talningum á ungum í öllum landshlutum. Niðurstöður sýna lélega viðkomu á Vestfjörðum, Norðausturlandi og Austurlandi og í öðrum landshlutum var hún í slöku meðallagi. Gera má ráð fyrir að veiðistofn rjúpu á komandi hausti verði minni en efni stóðu til.
Rjúpa er vinsælasta bráð íslenskra skotveiðimanna og uppistaðan í veiðinni haust hvert eru ungar frá sumrinu á undan. Mælingar á viðkomu rjúpu eru því mikilvægur áviti á ástand stofnsins á komandi veiðitíma. Einu skipulögðu ungatalningar hjá rjúpu síðustu áratugi hafa verið á Vesturlandi og Norðausturlandi. Aukið átak var sett í ungatalningar sumarið 2023 og þá var talið í öllum landshlutum og það var gert aftur nú í sumar.
Talningar í júlí sýna slaka viðkomu hjá rjúpum á Norðausturlandi (4,5 ungar á kvenfugl), Vestfjörðum (5,2 ungar á kvenfugl), og á Austurlandi (5,2 ungi á kvenfugl). Á Suðurlandi (6,0 ungar á kvenfugl), Vesturlandi (6,3 ungar á kvenfugl) og á Norðvesturlandi (6,1 ungi á kvenfugl) var viðkoman alls ekki góð en þó svipuð því sem verið hefur tíðast síðasta áratuginn eða svo. Léleg viðkoma rjúpu nú í sumar mun hafa neikvæð áhrif á stærð veiðistofns í haust. Líklegasta skýringin á lélegri viðkomu hjá rjúpunni í ár er hart hret sem gerði í fyrstu viku júní og rigningatíð á ungatíma í síðari hluta júní og í júlí. Um norðanvert landið voru líklega allar rjúpur orpnar og lágu á eggjum þegar hretið skall á í byrjun júní. Það varði í tæpa viku og afleiðingarnar fyrir rjúpu voru meðal annars þær að stór hluti kvenfugla afrækti hreiður sín, sumar þeirra urpu aftur en aðrar ekki.
Hátt hlutfall rjúpuunga í ár er úr þessu seinna varpi, þeir klöktust hið minnsta um mánuði síðar en eðlilegt er, og taka út sinn þroska og vöxt nú síðsumars og á komandi haustdögum. Hliðrun á varptíma mun mögulega hafa áhrif á lífslíkur unganna fram að veiðitíma, það er hvað skilar sér af þeim inn í veiðistofninn, og hún mun örugglega hafa neikvæð áhrif á vænleika þeirra á veiðitíma. Hliðstæðir atburðir hafa ekki orðið í 60 ára sögu rjúpnavöktunar á Íslandi og hafa sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar verulegar áhyggjur af stöðu rjúpnastofnsins í ár vegna þessa.