Fréttir

Flugujól

Félagarnir sem eru með Flugubarinn eru farnir af stað með sölu á jóladagatali veiðifólksins, sem þeir kalla Flugujól. Þetta er annað árið sem þeir standa fyrir þessu skemmtilega dagatali, sem inniheldur eina flugu á dag frá 1.-24. desember.

„Við seldum upp öll þau dagatöl sem voru í boði í fyrra og því fannst okkur það eina rétta í stöðunni að endurtaka leikinn“ segir Gunnar Helgason, einn af Flugubarþjónunum, eins og þeir kalla sig. „Viðtökurnar í fyrra voru algerlega frábærar, en þó fannst okkur að við gætum gert enn betur þegar kemur að gæðum á flugunum. Eftir mikla leit, sem náði yfir allar heimsálfurnar sjö, fundum við hnýtingaverkstæði á nokkrum stöðum sem uppfylla gæðakröfur okkar. Þannig að hafi fólk verið ánægt með dagatalið í fyrra ætti það að verða enn glaðara með dagatalið í ár!“

Það er gaman að fylgjast með þessum veiðigaurum sem eru að reyna að gleðja íslenskt veiðifólk, ekki bara með dagatölum heldur líka með Veiðikassanum og veiðiferðum til Slóveníu. En Gunni, hvernig flugur eru á bak við gluggana í dagatalinu? „Herra Bender, ég er ekkert að fara að uppljóstra því hér, það eyðileggur spennuna og gleðina þegar hver gluggi er opnaður! En ég get þó sagt þér að í dagatalinu eru púpur, straumflugur, laxaflugur og já, við erum hreinlega með allan skalann. Besti bitinn bíður þó þar til 24. desember því þar á bak við er ný og óvænt leynifluga. Nei, nú talaði ég af mér!!“

Jóladagatöl eru sem sagt ekki bara fyrir krakka heldur líka fyrir hin fullorðnu. Við þökkum Gunna fyrir spjallið og hvetjum fólk til að skoða málið. „Bíddu, 50 fyrstu sem panta dagatal fá geggjað flugubox í kaupbæti. Sem er mjög hentugt þegar maður byrjar að opna gluggana – þá er komið flugubox til að raða í. En það eru ekki mörg flugubox eftir held ég,“ segir Gunni Helga að lokum. 

Hér er svo hlekkur á dagatalið fyrir áhugasama; https://flyfishingbar.com/products/fly-fishing-advent-calendar