Upprunagreining laxa sem veiðst hafa í ám
Sameiginleg frétt Matvælastofnunar, Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar um stöðu upprunagreininga laxa sem veiðst hafa:
Samtals hafa 22 laxar borist Hafrannsóknastofnun og sýni úr þeim verið send til erfðagreiningar. Af þessum eru sjö fiskar staðfestir eldislaxar og því 15 sem reyndust villtir. Eldislaxarnir veiddust í Haukadalsá, Hrútafjarðará, Vatnsdalsá og Miðfjarðará. Tilkynningar hafa borist um sex laxa til viðbótar með eldiseinkenni.
Rakning stendur yfir á staðfestum eldislöxum og enn benda niðurstöður til sameiginlegs uppruna sex laxa úr Dýrafirði. Svo virðist sem einn staðfestur eldislax hafi annan uppruna og rannsókn hafin á uppruna þess fisks. Stofnanirnar þrjár starfa áfram saman að rannsókn málsins og veita upplýsingar þegar frekari niðurstöður liggja fyrir.
Áfram er mikilvægt að fylgjast vel með því hvort fleiri laxar með eldiseinkenni komi fram í ám og veiðimenn eru sérstaklega beðnir að vera vakandi yfir eldiseinkennum á veiddum löxum, sjá hér.
Ef lax með eldiseinkenni veiðist er þess óskað að veiðiaðili skili fisknum í heilu lagi til Hafrannsóknastofnunar til rannsókna og erfðagreiningar.