Veiðifélagið Hreggnasi hefur undirritað nýjan langtímasamning um rekstur og leigu á veiðirétti í Svalbarðsá í Þistilfirði, einni af gjöfulustu laxveiðiám landsins, mælt í fjölda veiddra laxa á stöng með hátt hlutfall stórlaxa. Með þessum samningi er staðfest áframhaldandi traust og gott samstarf milli Hreggnasa og landeigenda við Svalbarðsá – samstarf sem á rætur að rekja allt aftur til ársins 2006.
Samningurinn markar tímamót í sögu árinnar og tryggir áframhaldandi uppbyggingu og vönduð vinnubrögð í þágu náttúru og veiðimanna
Samhliða samningnum verður ráðist í endurnýjun og stækkun veiðihússins við ána. Nýja húsið mun bjóða upp á aukin þægindi og bætta aðstöðu fyrir veiðimenn, sem styrkir enn frekar stöðu Svalbarðsár sem eftirsóknarverðs áfangastaðar fyrir veiðimenn jafnt innlenda sem erlenda.
Með nýjum samningi er tryggt að áfram verði lögð rík áhersla á vöktun og verndun árinnar, í samræmi við stefnu Hreggnasa um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.