Ytri-Rangá á veiðitoppnum – veiðifréttir víða að
Laxveiðin gengur ágætlega þessa dagana og Ytri Rangá er á veiðitoppnum með 1674 laxa, síðan kemur Þverá í Borgarfirði svo með 1496 laxa, svo Miðfjarðará með 1290 laxa, svo Norðurá með 1175 laxa. Kíkjum aðeins á stöðuna á veiðisvæðunum sem Sangaveiðifélag Reykjavíkur bíður uppá. Þar gengur veiðin vel.
Elliðaár
Elliðaárnar halda sínu striki og er tala veiddra laxa að nálgast 600. Það verður spennandi að fylgjast með næstum vikum en eingöngu vantar 25 laxa til að jafna lokatölur síðasta árs. Elliðaárnar eru uppseldar í ár.
Flekkudalsá
Eftir ágætis kropp þessa síðustu viku er áin að skríða í 100 laxa og hefur vatnsstaðan verið góð. Þá er gaman að segja frá því að við fengum fréttir af tveimur veiðikonum sem báðar fengu Maríulaxinn sinn í gær og það á sömu vaktinni. Gleðin er því allsráðandi í Flekkudalsá um þessar mundir.
Gljúfurá
Heldur rólegt hefur verið yfir Gljúfurá í sumar þrátt fyrir fínar rispur inn á milli. Ekki má þó gleyma því að áin er þekkt fyrir að vera sterkust síðsumars svo þeir sem eiga leyfi eftir miðjan mánuðinn geta farið að láta sig hlakka til! Fyrir áhugasama eigum við tvö laus holl seint í september.
Haukadalsá
Haukan er búin að vera mjög sterk upp á síðkastið en áin óx mikið í monsúnrigningumsíðustu viku og fór úr sex rúmmetrum í tíu. Í kjölfarið kom ansi kröftug innspýting af nýjum fiski sem var fljótur að dreifa sér um alla á. Veiðinbókin státar nú af 261 laxi en á sama tíma í fyrra var talan 163. Haukan er uppseld í ár.
Korpa/Úlfarsá
Mikið líf er í ánni, veiðin komin í 144 laxa og 31 sjóbirting á stangirnar tvær, og búast má við flottum lokatölum úr Korpunni sem er uppseld í ár.
Langá
Nóg af vatni, stundum meira að segja aðeins of mikið, og fiskurinn vel dreifður. Já, Langáin er enn sterk og vikuveiðin, rúmir 100 laxar, lyftir heildartölum upp í 767 laxa. Þess má geta að lausum dögum fer ört fækkandi og því um að gera að tryggja sé dag tímanlega en HÉR má sjá lausar dagsetningar.
Laugardalsá
Mikill uppgangur er í Djúpinu og Laugardalsáin á fínu róli, með 51 lax skráðan í bók, og þá hefur silungsveiðin verið góð. Að sögn Hermanns Hermannssonar sem var við veiðar nýverið er talsvert er af laxi, þó hann haldi sig reyndar á fáum stöðum, og með því að læðast og hvíla má gera fínustu veiði. Hermann og félagar lönduðu 5 löxum, og misstu marga, en fengu líka slatta af vænum urriða.
Leirvogsá
Leirvogsáin er búin að vera skrýtin í ár, það koma góðir kaflar inn á milli og svo virðist ekkert vera að gerast, við vitum þó að það er töluvert ennþá óskráð úr veiði síðustu viku og það skilar sér í bók. samkvæmt okkar heimildum er mikið af fiski í ánni og birtingurinn að koma sterkur inn í veiðina.
Miðá
Miðáin er á fínu róli, nóg vatn og nóg af fiski, og bleikjan aðeins farin að láta sjá sig líka sem veit á gott. Nokkur holl laus í september í Miðá.
Sandá
Eftir góða síðustu viku er Sandáin að komast í gírinn. Nú er tími stórlaxanna handan við hornið og enn eru tvö laus holl í september.
Þverá í Haukadal
Þveráin hefur heldur betur sótt í sig veðrið síðustu daga en 21 fiskur er nú kominn í bók síðan tímabilið hófst – þar af 13 þessa fyrstu viku ágústmánaðar. Það er greinilegt að engu er logið þegar veiðimenn segja að mikið líf sé í ánni. Hermann Þór Marínósson var við annan mann á veiðum í vikunni og gengu þeir félagar um 40 kílómetra og veiddu ána frá toppi til táar. Við gefum Hermanni orðið:
“Efsta svæðið er rosalegt! Löbbuðum 40 kílómetra þennan dag og náðum þremur löxum á efsta svæðinu. Fullt af laxi neðar líka en mjög mikið líf á efsta svæðinu.”
Brúará í landi Sels
Brúará hefur komið sterk inn að undanförnu og eru Dynjandi og Fosspotturinn fullir af sjóbleikju. Laxinn er mættur en enginn hefur veiðst hingað til. Laus leyfi eru í vefsölunni.
Flókadalsá í Fljótum
Fremur rólegt er yfir veiðinni í Flókadalsá þó slatti af bleikju sé á svæðinu og hafa veiðimenn verið gjarnir á að landa bleikjunni á milli veiðistaða. Áin hefur verið heldur vatnsmikil í sumar en virðist nú loksins vera að detta í gott vatn.
Gufudalsá
Góð veiði hefur verið síðustu daga í Gufudalsá. Í rafrænu veiðibókina hafa 39 bleikjur og einn lax verið skráð en talsvert meira í veiðibókina sjálfa í húsi.
Laxá í Mývatnssveit
Frábær veiði er á svæðinu og eru 2961 urriðar komnir á land ásamt 60 bleikjum.
Laxá í Laxárdal
Dalurinn hefur verið góður í sumar og mikið af smærri fiski í kringum 50 cm. að koma inn í veiðina. Sannkallaðir ruðningsboltar eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Tímabilinu lýkur eftir slétta viku, eða þann 15. ágúst, og það verður gaman að fylgjast með lokatölum.