Saga laxveiða í Borgarfirði er rannsóknaverkefni sem hefur verið í gangi síðustu þrjú ár á Landbúnaðarsafninu. Þar sem laxveiðar í Borgarfirði eru skoðaðar út frá mörgum þáttum s.s. sögu, menningu, efnahag, náttúru- og líffræði. Verkefnið nær til sveitarfélagsins Borgarbyggðar þó áherslan sé á þeim ám sem renna í Hvítá/Borgarfjörð, nánar til tekið; Hvítá, Langá, Gljúfurá, Gufuá, Norðurá, Þverá/Kjarará, Reykjadalsá, Flóká, Grímsá/Tunguá og Andakílsá. Svæðið er því frá uppsveitum Borgarfjarðar og vestur að Haffjarðará.
Rannsóknarverkefnið hefur teygt anga sína víða og hafa samstarfsaðilar verið m.a. HAFRÓ, Erfðalindasetrið, Safnahús Borgarfjarðar og veiðifélög í héraðinu. Öflun heimilda var í gegnum frásagnir, skjöl, umfjallanir um sögu, hagfræði, náttúrufræði og líffræði laxa og laxveiða. Farið var meðal annars að safna munnlegum heimildum þar sem tekin voru viðtöl við reynslubolta í héraðinu sem komu að félagsmálum og laxveiðum á mismunandi hátt. Gripir og ljósmyndir segja líka sína sögu og hefur þeim verið aflað þar sem má til dæmis nefna fyrsta laxateljarann sem notaður var í Norðurá sem virkaði fyrir stórar ár, sá fyrsti í heimi (sjá frekar um laxateljarann inn á facebooksíðu safnsins).
Niðurstöðurnar á fjölbreyttum þáttum verkefnisins fá síðan að njóta sín á safnasýningu sem opnuð verður í vor/upphafi sumars og í útgáfu greinasafns sem síðar lítur dagsins ljós. Helstu niðurstöður verkefnisins koma nú kannski betur í ljós í miðlun þess á sýningu og útgáfu en það má segja að það hefur leitt í ljós að laxveiði hefur haft gríðarleg áhrif á hvernig landbúnaður mótaðist í héraðinu.
Tekjur af auðlindinni skipta bændur á svæðinu miklu máli og hefur spilað sinn þátt í því að héraðið er fyrst og fremst landbúnaðarmiðað svæði með áherslu á sauðfjárrækt. Eins má nefna hve mikilvægt það er að gæta vel að þessari auðlind. Laxveiðar og velgengni hennar er ekki sjálfsagt mál og margar hættur sem steðja að greininni eins og loftslagsbreytingar, aukið sjókvíeldi, ásælni fjársterkra aðila að landnæði og vatnsréttindum. Sýningin er hugsuð til framtíðar í Landbúnaðarsafninu sem og varðveisla og rannsóknir á menningu og sögu laxveiða hér á landi.