Fallegt við Hreðavatn en fiskurinn orðinn smár
„Ég hef stundað mikið veiðar við Hreðavatn í sumar og fengið talsvert af fiski. Fiskurinn er orðinn of smár í vatninu og reyndar fleiri vötnum í nágrenni. Það verður að grisja þessi vötn eins og gert var hér áður fyrr,“ sagði veiðimaður, sem við hittum við vatni fyrr í sumar og hann bætti við; „snemma á vorin er sæmilegur fiskur en um leið og líður á júnímánuð minnkar fiskurinn og smáfiskurinn tekur yfir í vatninu. Þetta sama er að gerast í fleiri vötnum. Það þarf átak. Stærsti fiskurinn sem ég veiddi í sumar í vatninu var rúmlega tvö pund. Það er fallegt við Hreðavatn og gaman að stunda hér veitar. En það þarf að grisja,“ sagði veiðimaðurinn sem talaði um að sumir fiskar væru jafn stórir og flot að stærri gerðinni.
Það var fallegt veður við Hreðavatn um helgina, einn og einn fiskur að vaka, en enginn að veiða þessa daga. En vatnið hefur látið á sjá í sumar og vatnsborðið lækkað verulega. Einn og einn fugl sást við vatnið um helgina en flestir eru farnir annað.
