Fréttir

Biðin styttist verulega en hvernig veður fáum við?

Biðin eftir því að vorveiðin byrji styttist með hverjum deginum en 1. apríl má veiðin hefast formlega, veðurfarið hefur verið einmuna gott síðustu vikurnar. En hvernig verður apríl og kemur páskahretið, allt getur svo sannarlega gerst. Það er þá bara að klæða það af sér ef kólnar.

Einn af þeim sem alls ekki getur beðið lengur er Björn Hlynur Pétursson og við heyrðum aðeins í honum, þegar ekki eru nema 15 dagar þangað til fyrstu veiðimenn mega renna fyrir fisk.

„Já þetta styttist með hverjum deginum það er rétt, maður getur ekki beðið lengur,“ sagði Björn Hlynur Pétursson og bætti við; „við félagarnir ætlum að skella okkur í Ytri-Rangá en veðurfarið síðasta vor var hræðilegt, verður vonandi betra núna. Það voru 30 metrar á sekúndu og klakar út um allt. Apríl í fyrra var svakalegur sá versti sem ég hef átt á árbakkanum. En það verður örugglega betra núna þó allt geti gerst. Þetta verður vonandi gott,“ sagði Björn Hlynur ennfremur.

Leirá í Leirársveit var í fanta formi vatnslega í gær en veiðin hefst þar 1. apríl og verður gaman að sjá byrjunina í henni. Hörku veiðimenn opna hana eins og venjulega.