Vorveiðin fór vel af stað í gær, veðurfarið var víða gott og frábær veiði á nokkrum stöðum eins og í Geirlandsá og Tungulæk. Við tókum hús á veiðimönnum við Grímsá í Borgarfirði sem opnaði í gær.
„Já við vorum að opna ána, ég og Hilmir Dan Ævarsson, veiðin gekk bara vel,“ sagði Alfreð Logi og bætti við; „veiðin var bara fín heilt yfir en þurftum aðeins að leita að fisknum, sem er bara eðilegt á þessum tíma árs. Fiskurinnn var aðallega Stórlaxaflöt og Hólmavaðskvörn. Við tókum hálfa vakt og fengum báðir sitt hvorn birtinginn og einn niðurgöngulax. Svo erum við að fara aftur 16. apríl í Grímsá,“ sagði Alfreð Logi að lokum. En þeir félagar eru leiðsögumenn hjá Hreggnasa og verða á árbakkanum í sumar.
Leirá i Leirársveit gaf 7 fiska fyrir hádegi og Árni Kristinn Skúlason kom eftir hádegi að veiða. „Sá mikið af fiski, fékk einn og nokkrar tökur. Glettilega mikið af fiski sérstaklega á milli veiðistaða,“ sagði Árni Kristinn enn fremur.
Byrjunin lofar góðu, spáin næstu daga er frábær, hlýtt á aprílmælikvarða. Vötnin opna eitt af öðru líka, Vífilsstaðavatn opnaði í gær og veiðimenn voru mættir strax á árbakkann.