Spóinn
Almennar upplýsingar
Spói er stór vaðfugl, háfættur og rennilegur. Hann er grábrúnn með ljósum fjaðrajöðrum að ofan, á bringu og niður á kvið en annars ljós á kviði og neðan á vængjum, með dökkbrúnan koll og augnrák en ljósa brúnrák og kverk. Hvítur gumpur og neðri hluti baks eru áberandi á flugi. Ungfugl er svipaður en goggur styttri og beinni. Kynin eru eins, en kvenfuglinn ívið stærri.
Á flugi þekkjast spóar á hröðum vængjatökum. Þeir fljúga oft um í hópum síðla sumars, áður en þeir yfirgefa landið. Spóinn er annars fremur ófélagslyndur. Hann tyllir sér oft á háan stað, t.d. fuglaþúfu, og vellir. Söngur spóans, vellið, er eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins.
Fæða og fæðuhættir
Skordýr, köngulær, sniglar, ormar, krabbadýr og ber síðsumars. Langur goggurinn nýtist vel til að grípa fæðu jafnt á yfirborði sem í mjúkum leir.
Fræðiheiti
Numenius phaeopus(Fuglavefurinn)