Verður verra og verra með hverju árinu
Aldrei hafa veiðst eins fáir villtir laxar og í sumar samkvæmt bráðabirgðatölum Hafrannsóknastofnunar. Þetta er grafalvarleg staða sem krefst margþættra viðbragða til verndar laxinum.
Í fyrsta lagi verða veiðirétthafar að hugsa sinn gang. Efst þar á lista er að stöðva með öllu netaveiðar á laxi í ám. Ef ekki dugar annað til verður löggjafinn að grípa inn í til hafa vit fyrir mönnum. Ekki gengur að verið sé að veiða lax og drepa í stórum stíl í net og koma þannig í veg fyrir að laxinn geti hrygnt í ánum.
Í öðru lagi þarf að hugsa drög að nýju áhættumati Hafrannsóknastofnar upp á nýtt. Samkvæmt bókhaldi Hafrannsóknastofnunar veiddust 18.300 villtir laxar í sumar. Út frá þeirri tölu má gera ráð fyrir að hrygningarstofninn sé aðeins 20.000 til 25.000 fiskar í heild og hefur aldrei verið minni.
Í drögum sínum að áhættumati erfðablöndunar gengur Hafrannsóknastofnun hins vegar út frá því að hrygningastofninn sé hátt í 80.000 fiskar og vill leyfa allt að 4 prósent ágengni sleppilaxa úr sjókvíaeldi í ár.
Ágengni þýðir að einn af hverjum 25 löxum sem ganga í árnar geti verið úr eldi án þess að skaða viltu stofnana að mati Hafrannsóknastofnunar (sem við erum reyndar algjörlega ósammála en það er efni í aðra umfjöllun). Með öðrum orðum er það kenning Hafró að 3.200 eldislaxar geti gengið í íslenskar ár á hverju án þess að skaða villta stofn landsins, ef hann telur 80.000 fiska. Pælið í því.
En að villti stofninn sé í besta falli aðeins um þriðjungur af því sem Hafrannsóknastofnun gerir ráð fyrir gjörbreytir auðvitað lykilforsendu áhættumatsins. Eina leiðin til að halda ágengninni 4 prósent eða lægra er að fækka eldislöxum verulega í sjókvíum við landið. Um þessar mundir eru um 50.000 tonn af eldislaxi í sjókvíum við landið, eða um 28 milljónir eldislaxa.
Gera má ráð fyrir að minnsta kosti einn eldislax sleppi úr hverju tonni á ári. Það þýðir að sleppilaxar í sjónum umhverfis Ísland eru tvöfalt fleiri en allur villti stofninn.
Þetta er líklega miklu meira því ef sleppilaxarnir eru bara 50.000 á þessu ári þýðir það að sjókvíaeldisfyrirtækjunum hafi tekist að halda 99,82 prósent eldislaxanna innan netapokana. Hversu trúverðugt er það?
Norska hafrannsóknastofnunin gerir reyndar ráð fyrir að tveir til fjórir eldislaxar sleppi úr hverju tonni í sjókvíum þar við land.
Miðað við þá tölu hafa 100.000 til 200.000 eldislaxar sloppið úr sjókvíunum hér við Ísland bara á þessu ári eða allt að átta sinnum fleiri fiskar en allur íslenski villti laxastofninn.
Auðvitað mun þetta bara á enda á einn veg. Að íslenski laxastofninn verður þurrkaður út.