„Jú þetta var æðislegt, maður veiðir víst ekki maríulax nema einu sinni,“ sagði Eva Hlín Harðardóttir eftir að hafa landað 10 punda hrygnu í Klapparfjóti í Staðarhólsá í Dölum um síðustu helgi. „Ég var þarna í fjölskylduferð með tengdaforeldrum og systur tengdamömmu og mági en hún veiddi einnig sinn maríulax á sama stað, en á flugu, ég veiddi minn á maðk“. „Við vorum alls tólf saman, frá tveggja ára aldri upp í 72 ára og húsið rúmaði vel allan þennan fjölda. Gott sameiginlegt rými og það verður frábært að fá heitan pott en mér skilst að það standi til í allra nánustu framtíð“.
Alls komu sex laxar á land í túrnum sem Eva var í. Það var nóg vatn í ánum en hópurinn fann engan fisk, hvorki lax eða bleikju nema í Efri-Stokk og í Klapparfljóti. „Það hefði verið frábært að finna bleikjuna fyrir yngstu veiðimennina en við fundum hana bara ekki nema á þessum tveimur stöðum og einn 10 ára náði reyndar fínni bleikju í Efri-Stokk“ sagði Eva að lokum.