Allir að hnýta í vetur
„Um helgina var haldinn stofnfundur Fluguhnýtingarfélags Vesturlands, sem lukkaðist mjög vel og fengum við til okkar hóp af frábæru fólki, að honum loknum sátum við saman og hnýttum flugur og nutum samverunnar,“ sagði Jóhann Ólafur Björnsson, formaður félagsins og bætti við; „það eru ýmis konar verkefni og viðburðir í pípunum og einnig í samvinnu við önnur félög og við, í nýkjörinni stjórn félagsins, munum vinna að því að nóg verði af alls konar skemmtilegu í boði fyrir félagsmenn og gesti og munum við auglýsa vel komandi viðburði.
Fyrsta verkefni félagsins verður að taka þátt í Vökudögum sem er menningar og listahátíð á Akranesi og munum við þann 23. október taka þátt í opnunardagskrá Vökudaga og standa fyrir opnu fluguhnýtingarkvöldi í Keilusalnum á Akranesi klukkan 18:00. Eins og venjulega eru allir hjartanlega velkomnir og aðgangur ókeypis.
Allir áhugasamir um fluguhnýtingu eru velkomnir í félagið og að taka þátt í viðburðum þess. Til að skrá sig og að fylgjast sem best með mæli ég með hópnum okkar á Facebook; Fluguhnýtingarfélag Vesturlands.
Sem formaður félagsins þakka fyrir hönd stjórnar fyrir allan þann stuðning sem við höfum fengið úr ýmsum áttum við undirbúning og stofnun félagsins. Þessi meðbyr sem við höfum fundið er svo sannarlega ómetanlegur og hjálpar okkur mikið, takk kærlega fyrir,“ sagði Jóhann Ólafur enn fremur.

Heiðar Þór Lárusson gjaldkeri og Eyþór Helgi Pétursson og Finnbogi Jónsson meðstjórnendur