Fréttir

Efnilegir bræður í veiðinni

Bræðurnir Grímur Jóhann Dúason Landmark (7 ára) og Hrafn Dúason Landmark (9 ára) lönduðu sínum fyrstu bleikjum í vikunni. Þrátt fyrir ungan aldur náðu þeir að setja í og landa nokkrum myndarlegum fiskum sem komu ýmist á flugu eða spún. 

Bræðurnir eru ekki alveg ókunnir veiðum því þeir hafa veitt þorsk og ýsu á Sundunum við Reykjavík en hafa lítið stundað stangveiði í vötnum og ám hingað til. Búnaðurinn sem notaður var við veiðarnar var einfaldur, kaststangir fyrir börn, keyptar á bensínstöð og heimatilbúnar „vöðlur”, gerðar úr stígvélum, regnbuxum og sterku límbandi. Þessi góði árangur á eflaust eftir að hvetja þessa ungu veiðimenn til frekari dáða á þessu sviði í framtíðinni enda fátt betra en að ná sér í hreina og holla næringu í náttúrunni. Það kom þeim bræðrum á óvart hversu sterkar bleikjurnar geta verið en þeir vita fátt betra en að borða fisk sem þeir veiddu sjálfir.