FréttirMaríulax

Eitt markmið með veiðitúrnum að konan fengi maríulaxinn sinn

„Við vorum að koma úr Langá á Mýrum og það var eitt markmið, að konan fengi maríulaxinn og það tókst,“ sagði veiðimaður Eiríkur Garðar Einarsson, sem var að koma úr veiði með konunni sinni. Og markmið ferðarinnar tókst.

Ragnhildur Rós Kristjánsdóttir með maríulaxinn sinn úr Langá Mýrum /Mynd: Eiríkur

„Konan mín, Ragnhildur Rós Kristjánsdóttir var að fara í sinn fyrsta veiðitúr og staðurinn var Langá á Mýrum. Það er mikið af fiski í ánni og þetta var gaman, en maríulaxinn veiddi konan í Hellishyl, en ég fékk tvo laxa en laxinn hjá henni tók Haug númer 16. Það tók fimmtán mínútur að landa fiskinum og um kvöldið beit hún veiðiuggan af í veiðihúsinu, þetta var frábært. Ég lenti sjálfur í svaka slag við lax á síðustu vaktinni, risa sem tók rétt fyrir ofan Efri Stangarhyl og rauk niður í Neðri Stangarhyl. Þetta voru átök kallinn. Hann fór 200 metra niður eftir flúðir og fjör, fór veiðistaði á milli og svo missti ég hann þar eftir nokkrar mínútur,“ sagði Eiríkur jafn framt, hress með maríulaxinn hjá konunni – en sá stóri slapp.