Mér bauðst að fara í Langá með skömmum fyrirvara í vikunni. Tvær vaktir í laxlausri á. Ég var til í það. Það var orðið langt síðan ég fór á fjallið í Langá sem er einn mínum uppáhaldsstöðum í öllum heiminum. Fjallið var frísvæði sem gladdi mig mikið.
Ég sagði við makkerinn, Davíð Lúther Sigurðarson, að mig langaði að prufa nýja taktík sem ég heyrði um í sumar. Ekki þetta. Byrja á smáu og enda á stóru, heldur: byrja á smáu og enda á smáu. Hann var til í það.
Við byrjuðum í Hvítsstaðahyljunum (alveg við veiðihúsið) og sá efri var – okkur að óvörum – pakkaður af fiski, uppúr og niðrúr. Við tókum skæri, blað, stein um það hvor ætti að byrja og ég vann. Setti minnstu fluguna sem ég fann í boxunum undir. Teal and Black míkró míkró. Hahahæ, nú minnkapels ég fæ, söng ég í huganum þegar ég byrjaði að kasta á sístökkvandi laxatorfuna. Það hafði eitthvað kroppast upp dagana á undan þegar einhverjir sérfæðingar, kallaðir Minkurinn og Refurinn mokuðu honum upp á smáflugur.
Núnú, ég kasta og kasta og er svo spenntur að allt fer í vindhnúta og vitleysu. Engin taka. Davíð kemur á eftir mér með míkró eitthvað gult og er svo spenntur að allt fer í vindhnúta og vitleysu. Svo ég aftur og kasta aðeins betur og er með míkró Haug. Ég segi við Davíð: Hann tekur oftast við klettinn þarna á móti.
Og BÆNG! Og BINGÓ!
HANN ER Á!
Ég er svo mikill snillingur! Það er nú gaman fyrir Davíð að vera á stöng með svona færum veiðimanni. Hugsa ég. Og hugsa líka að ég hafi kannski brugðið of hratt við laxinum.
Og hann fer af eftir dúk og disk, rétt ókominn í háfinn.
En þetta byrjaði vel og við vorum að fara að lenda í bingói!
Davíð út með Pinnann.
Ekkert.
Ég út með litla Hauginn minn.
Ekkert.
aDavíð út með míkró Dimmblá. Og BÆNG! Fiskur á stöng. Fiskur á land! Djövussins snillingaaar! Söng ég.Við erum að fara að moka honum upp, segi ég. Davíð hlær og er sammála. Við ákváðum að sleppa því að færa okkur heldur njóta veislunnar í Efri Hvítsstaðahyl. Og það var veisla. Okkur var bara ekki boðið upp á fleiri tökur.
Á næsta svæði fyrir neðan var sama sagan. Lax á vel völdum stöðum í hástökkskeppni með og án atrennu. Þeir voru svo uppteknir í stökkkeppninni að þeir tóku ekki eftir flugunum okkar.
Ojæja. Tveir laxar. Ég meina einn lax og einn misstur. Það gæti verið verra.
Morguninn eftir áttum við neðsta svæðið. Eitt fallegasta veiðisvæði landsins. Smáflugur í tugatali fengu að blotna. En það var ekkert að frétta fyrr en eftir tvo tíma að lax stekkur. Og helvítið hann Davíð ákveður að setja meðalstóran Sunray undir. Og haldiði ekki bara að hann taki helvítis sólargeislann.
Þetta er eins og að veiða á maðk þetta helvíti. Ætti að banna þetta.
Það er kannski rétt að taka fram að alveg að fram að þessu augnabliki var Sunray uppáhaldsflugan mín en nú var ég frelsaður smáflugukall og þoldi þetta ekki. Ég reyndi allt til að klúðra lönduninni. Ég sparkaði í laxinn. Ég ýtti honum frá landi með háfnum þegar ég þottist vera að reyna að háfa hann. Ég þvældist fyrir línunni. En allt kom fyrir ekki. Davíð dró hann bara á land.
Ég samgladdist auðvitað. Innilega.
Og lagði til að við myndum fara á Fjallið. Uppáhaldið mitt.
Það var ekkert að sjá í Ármótunum.
Það var veiðifólk í Flúðaholu. Og fullt af laxi. Eins og í næstum öllum hyljunum sem við stoppuðum í.
Og þvílík fegurð. Það er algjörlega einstakt að vera þarna uppfrá.
En klukkan tíu áttum við Campari, þar sem ég fékk fyrsta laxinn minn í Langá. Og sérfræðingurinn – Davíð (sá sem hefur fengið fisk breytist alltaf skyndilega í sérfræðing) – fór að vorkenna mér.
Vilt þú ekki byrja? spurði hann með vorkunnarsvip.
Ég ansaði þessu ekki heldur setti Haug númer 16 undir. Og viti menn. Allt í einu fóru fiskar að stökkva um allt. Það var eins og kveikt hefði verið á stuðiinu með Hauginum. En hann tók ekki. Ég ákvað að skipta um flugu. Haugurinn búinn að hita hylinn upp. Þá lenti ég í mjög alvarlegu tilfelli af fluguvalskvíða. Ég á svo mikið af örtúbum sem ég hef aldrei notað og veit ekki hvað heita að mér lá við andnauð.

Þá braust sólin fram. Og Sunrayjaði boxið mitt svo glitraði á litla túbu, vafna í silfur. Með svart skott. Og bláan og fjólubláan glitþráð. Almættið hafði talað.
Flugan þaut í gegnum loftið og lenti eins og vatnsdropi á háréttum stað, enda kastið fullkomið. Strippistripp. Og HANN ELTI!
En tók ekki.
Ég tók mér stutta pásu. Tvö skref upp á við og eitt til hliðar, svona eins og í Færeyskum hringdansi. Kastaði á sama stað. Strippistripp. Ekkert.
Aftur kastaði ég á sama stað. Strippistripp. Ekkert.
Á ég að skipta um flugu? Nei! Almættið talaði. Ég kastaði á sama stað og striiippistriiipp. Aðeins hægara en áður. OG HANN ELTI! Sneri sér við með skvettu!
Ókei, svo þú ert að ögra mér? hugsaði ég og strippaði næst með löngum og hægum togum. HANN ELTI. OG ….. NEGLDI FLUGUNA!
The rest is history.
Ég var svo mikill snillingur! Einn lax á land!
Svo var ég að lesa að helvítið hann Kalli Lú hafi tekið fimm fiska á klukkutíma þetta sama kvöld í hyl sem við ákváðum að sleppa. Það er allt gert til að berja niður í manni sjálfstraustið! En til hamingju Kalli. Ég þarf eiginlega að heyra í þér til að fá að vita hvað þú gerðir, hvernig þú fórst að þessu.
Þá moka ég honum næst upp.
Hér fylgir mynd eins og á að taka laxamyndir. Þetta eru 62 sentímetrar sem ég held á.