„Þetta byrjaði flott í Þverá í gærmorgun og það veiddust sjö landaðir laxar fyrir hádegi, allt frá svæði 1 til 7, áin var vatnsmikil og fiskur um allt,“ sagði Egill Ástráðsson staðarhaldari við Þverá í Borgarfirði. Það sem gerðist var að það hélt áfram að rigna og með kvöldinu var áin orðin óveiðandi.
„Ég var að veiða seinni partinn en fékk ekki fisk. En það verður veisla þegar áin lagast aftur og svo byrjar veiðin í Kjarrá í dag,“ sagði Egill ennfremur um stöðuna við vatnsmikla Þverá og Kjarrá í gærkvöldi.
En byrjunin lofar góðu, fiskurinn er mættur og þá er bara að fá árnar aftur inn þegar rigningunni slotar. Norðurá hefur gefið á milli 50 og 60 laxa, Þjórsá er komin með 75 laxa og hver áin af annarri opnar næstu dagana.