Gat fannst á sjókví nr. 1 á eldissvæði Arctic Sea Farm við Eyrarhlíð í Dýrafirði. Gatið var u.þ.b. 20×40 cm að stærð. Vísbendingar eru um að gatið hafi verið á kvínni í nokkurn tíma án þess að framleiðandi hafi tilkynnt um tilvist þess til Matvælastofnunar. Samkvæmt gögnum var neðansjávareftirliti við Eyrarhlíð sinnt á 30 daga fresti líkt og reglugerð kveður á um og tilkynnt til stofnunarinnar að ekkert athugavert hefði komið fram við neðansjávareftirlitið.
Lokið var við að slátra öllum laxi úr eldiskvínni þann 6. júlí sl. Matvælastofnun lítur málið alvarlegum augum og hefur hafið rannsókn. Stofnunin hefur kallað eftir frekari gögnum frá Arctic Sea Farm sem gætu varpað skýrari ljósi á atvikið. Að rannsókn lokinni verður gefin út eftirlitsskýrsla um rannsóknina og birt á mælaborði fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar.