Laxveiðiár

Laxá í Kjós

Laxá í Kjós og Bugða eru meðal þekktustu laxveiðiáa landsins. Báðar koma þær úr stöðuvötnum, Laxáin hefur göngu sína í Stíflidalsvatni og rennur um 26 kílómetra leið til sjávar en Bugða, sem er öllu jafna mun vatnsminni, rennur úr Meðalfellsvatni, sameinast Laxá við veiðihúsið Ásgarð og fylgir hún henni síðasta spölinn til sjávar. Saga stangaveiða í ánni er löng og farsæl, breskir veiðimenn hófu að venja komur sínar upp úr 1880 og fljótlega eftir það var netaveiði á laxi hætt og samfelld saga stangaveiða hófst. Undanfarinn áratug hefur veiðirétturinn í ánum verið leigður Veiðifélaginu Hreggnasa. Veiðfélag Kjósarhrepps reisti eitt glæsilegasta veiðihús landsins við ána árið 2006. Þar er gistiaðstaða fyrir allt að 36 manns í tveggja manna herbergjum með útsýni yfir neðsta hluta ánna. Við sláumst í för með Haraldi Eiríkssyni en hann hefur verið viðloðandi ána í rúm 20 ár. Förin hefst við Þórufoss í Laxá, efsta veiðistaðinn á vatnasvæðinu. Hafa ber í huga að í lýsingunni er notast við norðurbakka og suðurbakka.

Þórufoss
Þessi 18 metra hái foss er ákaflega tilkomumikill en jafnframt leiðinlegur veiðistaður. Þarna getur safnast óhemju mikið af laxi og yfirleitt er hann mættur þangað strax við opnun árinnar 25. júní. Undanfarinn áratug hefur efsta svæði Laxár verið friðað fyrir veiði og efsti leyfilegi veiðistaður verið Skuggi sem er við enda gljúfrarhlutans sem einu nafni er nefndur Þrengsli. Á þessum hluta má finna veiðistaði líkt og Hvítuklöpp, Leyni, Urðir og Einstigi, sem áður gátu sér gott orð sem framúrskarandi maðkveiðistaðir. Því er ekki fyrir að fara lengur, svæðið er lokað og maðkveiði hefur verið bönnuð í Laxá frá árinu 2007.

Skuggi
Hér hefst hið eiginlega veiðisvæði Laxár. Skuggi er lítill og nettur veiðistaður þar sem Laxá opnast úr Þrengslahlutanum. Nafnið fékk hann vegna þess að vænlegt var að veiða hann þegar  gljúfurkamburinn varpaði skugga sínum á hylinn. Þetta er góður veiðistaður en viðkvæmur fyrir of miklu vatni, þar sem hann verður of hraður þegar vex í Laxá. Göngufiskur getur legið efst í strengnum en besti tökustaðurinn er neðan við miðjan hyl, framan við stórt grjót í botni.

Hylurinn er sem hannaður fyrir Portlandsbragðið. Hér fékk Ásgeir Heiðar fyrsta Atlantshafslaxinn sem vitað er til að veiðst hafi á stöng fyrir línu nr.0.

Gautshola
Gautshola er nokkur hundruð metrum fyrir neðan Skugga. Staðurinn, sem búinn var til fyrir um áratug, er nefndur í höfuðið á Gylfa Gaut Péturssyni leiðsögumanni við Laxá til margra ára. Hann hefur verið mjög vaxandi líkt og Gylfi sjálfur og er góður í meðalvatni eða meira. Í honum eru djúpar malargloppur við bakkann fjær og þar liggur laxinn. Nokkru neðar er Stórusteinahylur, sem er ekki sérstaklega gjöfull en góður þegar vatn er með minnsta móti en þá hverfur laxinn úr Gautsholu.

Kambshylur
Staðurinn breytist mikið milli ára og byggjast veiðitölur á því hvernig stórgrýti raðast yfir vetrartímann. Þetta er hrygningastaður og oft drjúgur í góðu vatni á haustin. Sumir kjósa að vaða yfir á norðurbakkann, enda blasir veiðimaður gjarnan við með því að standa á ruðningnum bílmegin.

Bláhylur
Þessi veiðistaður hvarf að mestu í flóðum árið 2018. Þó er neðri Bláhylur enn virkur og eins beygjan ofan þessa fyrrum gjöfula veiðistaðs. Vert er að reyna breiðuna neðan Bláhyls ef vatn er gott.

Hálshylur og Hálsármót
Ágætir veiðistaðir.
Hinn hefðbundin Hálshylur hvarf í flóðum árið 2018, og er nú mun minni en áður var. Nú ef einna helst að hylurinn gefi í litlu vatni, því ef vatn er mikið er staðurinn of hraður.

Hálsármót mynduðust fyrir um áratug og eru ármót Hálsár og Laxár. Lax liggur þar í grjótinu sem er í vatnaskilunum. Ljóst er að lax leitar upp í Hálsá til hrygningar og því bíður laxinn haustsins en kíkir á málin þegar  vatn er fyrir hendi.

Efra-Stekkjarfljót
Þetta er góður veiðistaður sem er smá saman að ná fornri frægð eftir að hann fylltist af möl fyrir nokkrum árum. Hingað leitar laxinn sér í lagi í vatnavöxtum þegar að Stekkjarfljótið verður of strítt. Þá færir laxinn sig á grynnra vatn í Efra-Stekkjarfljóti og verður nokkuð tökuglaður. Þetta er klassískur fluguveiðistaður, stríður efst ef vatn er nægt og hægir á sér er neðar dregur. Best er að veiða staðinn af norðurbakkanum og til þess er vaðið á grynningunum milli fljótanna tveggja. Í vatnavöxtum verða hyljirnir á þessu efsta svæði nokkuð straumharðir. Við þær aðstæður getur verið gott að nota sökkenda til að hægja á agninu.

Stekkjarfljót
Stekkjarfljót er sennilega þekktasti veiðistaðurinn í uppánni. Hér áður fyrr lágu oft hundruðir laxa í fljótinu, sem í sjálfu sér er frekar lítill veiðistaður. Í seinni tíð hefur veiði í fljótinu dalað mikið eftir að möl barst í það en eftir lagfæringar landeigenda fer ekki á milli mála að lax er farinn að leggjast þar aftur í umtalsverðu magni. Staðurinn er klassískur, veitt er af malareyri að sunnanverðu (bílmegin) og mikilvægt að hefja veiðar alveg efst í strengnum, út af efri klöppinni af þeim tveimur sem skaga út í hylinn. Þar getur lax legið á örgrunnu vatni. Annars getur lax tekið í hylnum endilöngum og hér hafa ófáir stangaveiðimenn landað m Maríulaxinum sínum. Hér hefur sá sem ritar nokkrum sinnum náð laxi með þurrflugu á dauðareki.

Neðra-Stekkjarfljót, Krummholt og Þverárstrengur
Neðra–Stekkjarfljót er ekki mikill veiðistaður og er eyrunum neðan við beygju á ánni nokkru neðar Stekkjarfljóts. Einna helst er að finna þar lax á haustin í góðu vatni. Krummholt er hins vegar mjög vaxandi veiðistaður eftir að hann breyttist nokkuð fyrir um tveimur árum.  þÞá myndaðist eyri efst í strengnum og hægði á vatninu. Síðustu tvö sumur hefur legið þar nokkuð af laxi, sér í lagi þegar sumri fer að halla. Hann er veiddur af syðri bakkanum, ekið er að honum á þeim bakka upp frá Þverárstreng sem við stöldrum næst við. Þetta er fallegur fluguveiðistaður þar sem Þverá fellur til Laxár ofan Hækingsdals. Staðurinn sést frá brúnni við Króarhamar ef horft er upp ána. Þetta er fínn síðsumarsveiðistaður og er lax að finna frá strengnum í þrengingunni efst og niður á breiðuna. Hægt er að veiða í Þverárstreng beggja megin frá.

Grjóthrúga og Króarhamar
Grjóthrúgan myndaðist þegar  vegurinn ofan brúar var varinn ágangi Laxár. Þetta er lítil kvörn þar sem lax liggur við stórgrýti í botni. Þetta er einnig göngustaður og þarna veiddist til að mynda fyrsti laxinn á efri svæðunum sumarið 2015 en jafnframt leitar laxinn í dýpið þegar vatn er of lítið fyrir Króarhamar sem er undir brúnni yfir í Hækingsdal. Hér um ræðir fornfrægur veiðistaður og oft er hægt að sjá laxinn af brúnni eða af hamrinum neðan hennar. Lax liggur hér allt að sumarið, í litlu vatni með grjótunum í norðurbakkanum en þegar að vatn eykst getur hann legið á breiðunni fyrir neðan hamarinn. Staðurinn er veiddur af suðurbakkanum. Hér lá gríðarstór lax síðastliðið haust, áætlaður langt yfir tuttugu pundin.

Hverfull, Brúnkuhylur, Flóðmýrarhylur, Klapparstrengur, Selárstrengur og Efri-Gljúfur
Eyrarnar neðan Króarhamars breytast nokkuð á hverju ári. Sumarið 2014 myndaðist á miðjum eyrunum falleg breiða sem fékk nafnið Hverfull. Þetta var einn besti veiðistaður árinnar það sumarið en hafði aftur fyllst af möl í sumar sem leið. Þetta er lýsandi fyrir þennan kafla árinnar. Því  er misjafnt hvar Brúnkuhylur er staðsettur að vori og um að gera að kanna þennan kafla á tveimur jafnfljótum. Flóðmýrarhylur er lítil kvörn þar sem rennur utan í veginn niður að Efri-Gljúfrum. Þar liggur oftast lax en betri veiðistaður er Klapparstrengur neðan við hamarinn ögn neðar. Klapparstrengur er frábær staður þegar vex í Laxá og laxinn flýr hraða vatnið úr gljúfrunum fyrir neðan. Þá er hann sérstaklega tökuglaður á rólegri breiðunni. Besti tökustaðurinn er þar sem mölinni sleppir á norðurbakkanum. Annars getur lax legið um allan hylinn og er þetta einn besti hauststaður árinnar. Selárstrengur er ekki mikill veiðistaður en þar má finna lax í góðu vatni þegar hann færir sig úr gljúfrunum.

Nú breytir Laxá aftur um svip og fellur aftur inn í gljúfrahluta sem nær niður fyrir Vindás. Efsti hluti þeirra nefnast Efri-Gljúfur, stórgrýtt hvífyssi á um 50 metra kafla. Þar getur safnast mikið af laxi, sér í lagi þegar að vatn er lítið. Þarna er að finna nokkra þekkta tökustaði, þeirra þekktastur er „Skammtarinn“. Til að veiða gljúfrin þarf að vera frár á fæti og þangað fara aðeins frískustu menn. Þeir sem geta ættu hins vegar að láta slag standa, fátt er skemmtilegra en að veifa gárutúbum á bak við grjótin í gljúfrunum.

Spegill
Spegill er stór og áberandi hylur sem blasir við ofan við Pokafoss. Þetta er frábær veiðistaður, djúpur og hægur. Besti tökustaðurinn er efst í hylnum en til hans falla tvær litlar rennur og er bletturinn efst í rennunni fjær í hálfgerðri klapparkvörn. Þarna liggur oft mjög mikið af laxi og er staðurinn veiddur af grastotu á suðurbakkanum. Búið er að koma fyrir reipi til að auðvelda aðgengi að veiðistaðnum ofan frá. Þarna liggur öllu jöfnu mikið af laxi og gjarnan stærstu laxarnir sem Laxá hefur að geyma. Í miklu vatni er oft lax á breiðunni fyrir ofan en hún myndast af klapparrana sem kagar út í ána frá suðurlandinu.

i Neðri-Spegill
Líkt og staðurinn á undan getur þessi  verið mikil laxakista. Besti tökustaðurinn er í þrengsta hlutanum í hraða vatninu. Liggur tökulaxinn á frekar grunnu vatni uppi á klapparhellu. Þar fyrir neðan liggur mest af laxinum en hann snýr yfirleitt öfugt og tekur sjaldnast agn. Í meira vatni getur laxinn legið á blábrúninni þar sem Laxá fellur í Pokafoss. Agnarsmá Collie Dog sem er strippuð hratt upp strenginn gerir hér oft gæfumuninn. Þetta er líka afburða staður til að brúka Portlandsbragð.

Pokafoss
Pokafoss er enn ein laxakistan í gljúfrunum. Þarna er alltaf lax, ef hann er á annað borð genginn fram ána. Í meðalvatni liggur fiskurinn út af klapparnefinu og í raun undir því. Þarna getur verið gaman að veifa agnarsmárri flugu í miklu návígi við laxinn og sjá þegar hann ræðst á hana. Í miklu vatni liggur hann neðar á Pokafossbreiðunni — og þá er gaman, geti menn á annað borð kastað af gljúfurbarminum sunnanmegin en til þess þarf góða kastara. Menn skulu varast að eyða of miklum tíma í Pokafossi og um leið og laxinn byrjar að hringsóla er mál til komið að leita á önnur mið.

Neðri-Gljúfur
Þetta er eitt nafn yfir neðri hluta gljúfranna. Í þeim eru nokkrir skemmtilegir göngustaðir, svo sem Lækjarstrengur og Klaufin. Gaman getur verið að ganga gljúfrin á göngutíma, sér í lagi þegar vatn er þokkalegt. Þá getur lax leynst nokkuð víða. Gangan tekur rúma klukkustund ef hratt er farið og óhætt að bæta annari við ef laxagöngur eru í gljúfrunum.

Ármótastrengur, Ármótahylur og Réttarhylur
Þessir staðir eru gjöfulir r í meðalvatni og allir staðsettir rétt neðan við Vindásbrúna. Ármótatrengurinn byrjar strax neðan við brúna og afmarkast af háum klöppum beggja vegna. Best er að skyggna ekki staðinn, heldur koma sér niður að vatnsyfirborðinu að norðanverðu og brölta niður allan strenginn. Lax getur legið þarna víða og samfellt niður í Ármótahylinn. Þar dýpkar vatnið og róast en gott er að strippa fluguna ofan við ármót Svínadalsár. Þar er grjót í botni sem laxinn liggur við. Réttarstrengur er í beinu framhaldi, niður undan hamrinum gegnt réttinni. Áður fyrr var þetta meiri hylur en hann hefur breyst mikið. Þó getur lax legið efst í strengnum á göngutíma.

Háamelshylur og Mörðuvallaeyrar
Háamelshylur er undir melnum þar sem Laxá beygir aftur til suður og sést frá veginum. Hægt er að aka að honum með réttinni á sunnanverðu og niður eyrarnar. Þetta er frábær veiðistaður í seinni tíð og hefur legið þar mikið af laxi. Flugunni er kastað yfir strenginn og liggur hann í straumkantinum fjær. Í meira vatni getur hann síðan legið niður breiðuna fyrir neðan. Sjá má, þegar horft er niður flúðirnar neðan Háamelshyls,  langan hyl með grasbakka að norðanverðu. Manna á millum gengur hann undir nafninu Háamelsfljót. Þar getur lax legið í góðu vatni, sérstaklega á göngutíma. Í framhaldinu kastast Laxá niður Möðruvallaeyrarnar í átt að Helgufljóti. Þetta er nokkur vegalengd og aðgengi að mögulegum veiðistöðum ekki gott. Hins vegar er freistandi fyrir frískar fætur að ganga frá fljótinu neðan Háamelshyls í góðu vatni, því að lax getur leynst víða á svæðinu niður að Helgufljóti. Helstu staðir í seinni tíð eru í kringum lítinn klapparfoss á miðjum eyrunum. Hægt er að að finna þann veiðistað með því að miða við nýja heitavatnsborholu þeirra Kjósarmanna. Þar lá mikið af laxi í sumar sem leið.

Helguholtskvörn og Helgufljót
Kvörnin er með hamrinum ofan við fljótið og er álitleg í litlu eða meðal vatni. Þá leynist fiskur við stórgrýtið ofan fljótsins. Helgufljótið sjálft er frábær veiðistaður. Lax getur legið frá malarkambinum sem örlar á efst að norðanverðu niður allt fljótið. Þeim mun meira vatn, því neðar getur laxinn legið. Öruggasti legustaðurinn er þó undir klapparhamrinum sem skagar út úr bakkanum fjær, þar sem stórgrýtt er í botni. Þetta er einn besti síðsumarsstaðurinn í Laxá og oft liggur þarna óhemju magn af laxi. Í vatnavöxtum færir fiskurinn sig úr hyljunum fyrir ofan og neðan í fljótið. Þarna geta sannkölluð ævintýri gerst þegar að flóðvatn gerir á haustdögum.

Hvassneskvörn og HvassneshyluKvörnin er áberandi fallegur veiðistaður niður undan nýja bæjarstæðinu við Stangarholt. Ekið er út á eyrina neðan bæjarins og bílnum lagt. Besti tökustaðurinn er í strengnum ofan við hylinn sjálfan, í kringum tvö grjót þar sem áin beygir til suðurs. Fyrir framan þau og aftan liggur tökufiskurinn. Gott er að halda eins mikilli fjarlægð frá veiðistaðnum og hægt er. Í Hvassneshyl er oftast lax að finna út af klapparnefi sem skagar út í ána frá suðurbakkanum. Til að veiða í hylnum þarf að vaða ána neðan Hvassneskvarnar. Besti tökustaðurinn er fyrir framan stórt grjót út af áðurnefndu nefi.

Neðri Berghylur (Willys), Gaflhylur, Efri-Lambhagi, Lambhagi (Red Barrel) og Skjálfkvíar
Sá fyrstnefndi af ofangreindum er fyrir neðan gamla Berghylinn sem nú er á þurru. Í stað hans rennur áin með norðurlandinu neðan Háamelshyls og skapar mjög fallegan veiðistað sem í daglegu tali er kallaður Willys eftir bíl sem þar fór á kaf. Laxinn liggur yfirleitt neðst, við grastotu sem skagar út í hylinn út úr norðurbakkanum. Veitt er á eyrunum að sunnanverðu. Gaflhylur er ekki til lengur þar sem áin steypir sér framhjá melnum og sleppir beygjunni sem þar var. Efri-Lambhagi er stórt fljót undir háum klettavegg neðan Gaflhyls. Hér þarf að færa sig yfir á eyrina norðanmegin og liggur laxinn við grjótin undir hamrinum. Lambhagi (Red Barrel) sjálfur er svo neðar, út af litlum hamri í suðurbakkanum þar sem áberandi stórt grjót er í botni. Liggur laxinn fyrir framan umrætt grjót í miðri ánni — beint út af hamrinum. Þetta er frábær göngustaður ef vatn er í meðallagi og þegar fimm laxar liggja þará má gjarnan ná þremur til fjórum. Nokkru neðar eru Sjálfkvíar, með veginum sem liggur með suðurbakkanum niður á Reynivallaeyrar. Þetta er ekki gjöfull veiðistaður.

Reynivallaeyrar ofan í Kotahyl
Þetta er mikið hrygningasvæði bæði fyrir lax og sjóbirting og spannar frá Vindáshyljum niður að Reynivallakirkjunni. Eyrarnar breytast frá ári til árs en hyljirnir eiga það sameiginlegt að vera veiddir frá eyrunum að sunnanverðu og yfirleitt er grasbakki að norðanverðu. Þetta er mjög gjöfult svæði frá miðju sumri fram á haust. Hér gildir að leita með því að aka með ánni eins og kostur er og fylgjast vel með bílförum. Yfirleitt eru leiðsögumennirnir fljótir að finna þessa staði og fer þá ekkert á milli mála hvert ekið er. Þarna eru þó gamalgrónir staðir líkt og Punghylur, Blue Barrell og Fjósið sem er rétt ofan við kirkjuna á Reynivöllum. Stekkjarneshylur er út af Reynivallakirkjunni. Hægt er að nálgast hann ast með því að aka gegnum málmhlið ofan við kirkjuna. Farið er til vinstri út af slóðanum til að nálgast Stekkjarneshyl en ef ekið er til hægri er komið að Kotahyl. Ofan við Stekkjarneshyl er Peter´s Pool, fallegur staður ofan við vaðið til að komast að Stekkjarneshylnum. Báðir hyljirnir eru eyrarhyljir með grasbakka og auðlesnir mjög.

Kotahylur er upphafið að hinu margfræga miðsvæði, nú aukast virkilega líkurnar á stóru sjóbirtingunum sem Laxá hefur að geyma. Þetta er stór og lygn hylur, mjög djúpur og hér þarf að hreyfa vind til að eiga möguleika. Margir stórir birtingar hafa hér fallið fyrir þurrflugu eða smárri Collie Dog þegar gárar vel á hylinn.

Hurðarbarkshyljir að Heyvaði
Um þetta svæði mætti skrifa aðra grein til. Þetta er hið margrómaða frísvæði sem getur geymt ótrúlegt magn laxa og sjóbirtinga. Hér er höfuðvígi sjóbirtingsins og í Kjósinni verður hann stór, jafnvel 15–18 pund. Þetta er merkilegur stofn, hann kemur ár eftir ár til hrygningar og göngutíminn er um margt sérstakur. Hann byrjar að sjást um Jónsmessuna og um Verslunarmannahelgi eru stærstu göngurnar komnar. Að vísu koma sjóbirtingsgöngur eftir það en þar er á ferðinni geldfiskur sem er smærri, eða 1–4 pund. Veiðimenn eru þó að leita að þessum stóru stei avi og þeir eru ekki auðveiddir. Til s að ná þeim þarf oft að beita klækjum, brúka þurrflugur og púpur sem veiddar eru andstreymis og granna tauma. Hins vegar getur það gerst í flóðvatni að þessi fiskur tekur nánast hvað sem er, þá helst þegar áin er í miklum vexti eða er að hreinsa sig eftir flóð. Þekktustu hyljir á þessu svæði eru neðsti Hurðarbakshylurinn, Efri-Mosabreiða, Kríueyri, Baulunesfljót og Norðurmýrarfljót. Þó skulu menn huga vel að Heyvaði, því að þar hefur legið nokkuð af fiski undanfarin tvö ár. Allir eru staðirnir keimlíkir, lygnir eyrarhyljir með háum grasbakka, veiddir af malareyrum. Mjög erfitt er að veiða þessa staði nema  gára sé á vatninu.

Álabakkar
Álabakkar eru magnaður veiðistaður og hér veiðast oft stærstu sjóbirtingarnir. Áraskipti eru á því hversu mikið veiðist í hylnum og fer það eftir því hvernig torfið hrynur í hylinn í vorflóðunum. Mest veiðist í miðjum hylnum út af lúpínufelldinum sem nú að mestu hylur sandeyrina að norðanverðu. Kasta þarf þétt upp að hærri bakkanum og liggur laxinn og sjóbirtingurinn með honum. Hér gildir það að vera með langa granna tauma, smáar flugur og strippa þær hratt yfir hylinn.

Káranesfljót
Áður en komið er að Káranesfljóti er rétt að benda á Óseyrina sem er rétt neðan við Álabakka. Þar er steinaröð í ánni sem myndar trekt og liggur oft mikið af sjóbirtingi á milli steinanna. Auðvelt er að sjá fiskana úr bílnum og styggjast þeirvenjulega ef hurðin er opnuð! Káranesfljótið er vel þekktur og vinsæll veiðistaður og sá neðsti á hinu eiginlega frísvæði. Þegar  ekið er upp Kjósarskarðið upp frá veiðihúsinu er strax tekin beygja til hægri út á engin, yfir litla trébrú og þar blasir fljótið við. Þaðan er hægt að aka svo nánast allt frísvæðið. Góð gára þarf að vera á fljótinu svo að þar veiðist en staðurinn er í beygju þar sem áin liðast til norðurs af engjunum. Veiðimenn standa að norðanverðu og kasta að klöppum sem eru í bakkanum fjær. Liggur fiskurinn hér þó nær en veiðimenn grunar en dýpsti hluti hylsins er tæplega í miðri ánni frá veiðimanninum séð. Hér gilda sömu veiðiaðferðir og annars staðar á miðsvæðinu.

Laxavað og Fauskanesbreiða
Þessir veiðistaðir eru mjög vaxanditar. Laxavað er neðan við trébrúna við veginn upp að Káranesfljóti. Þar eru klappir sem mynda bryggjur fyrir laxinn. Fyrsta bryggjan er strax neðan við hólmann af sýkinu sem rennur út í ána af engjunum. Fauskanesbreiða er hins vegar þétt upp við veginn ofan við veiðihúsið, þar sem áin tekur vinkilbeygju til suðurs. Þar blasa við grjót  úti í miðri ánni og liggur fiskurinn fyrir ofan það, sunnan við það og niður með bakkanum fjær. Hér þarf að vaða og brúka löng köst. Undanfarin sumur hefur Laxavað geymt mjög stóra laxa og hafa þar margir setið eftir með sárt ennið því að laxinn leitar gjarnan í grjótið í baráttunni við veiðimenn.

Eldhúshylur, Ármót og Pollabreiða
Þessir veiðistaðir ery frábærir, sér í lagi þegar vatn er gott á haustin. Eldhúshylur er á horninu ofan við veiðihúsið, rétt ofan við ármótin við Bugðu. Misjafnt er af hvorum bakkanum menn veiða hylinn en flestir veiða hann húsmegin. Þá er byrjað ofan við áberandi stein í flæðarmálinu og veitt niður undir ármótin. Besti tökustaðurinn er út af girðingunni sem veiðimenn þurfa að klofa til að komast að hylnum. Ármótin sjálf eru ekkert sérstakur veiðistaður en Pollabreiðan er þeim mun betrin. Þetta er stór breiða, annálaður hauststaður en gefur einnig vel á göngutíma þegar nóg vatn er. Þetta er seinveiddur staður með grjótum í miðjunni og niður undan þeim liggur laxinn. Hér er oft mikið af fiski, sér í lagi þegar að haustflóðin láta á sér kræla.

Klingenberg og Klingenbergbreiða
Nú hefst yfirreiðin yfir neðsta og þekktasta hluta Laxár. Hér breytir  áin um takt og rennur um klapparbotn með Bugðu sér til fulltingis. Klinbenberg er lítil kvörn með suðurlandinu undir litlum klettahamri sem sést vel frá veiðihúsinu. Til að komast að þessum hluta árinnar þarf að keyra niður á gömlu þjóðvegsbrúna og upp með Laxá að sunnanverðu. Þegar vatn er mikið liggur laxinn á Klingengbergbreiðunni, ofan við hamarinn. Þetta er stórskemmtilegur veiðistaður og getur fiskurinn legið víða. Þó helst er hann í rennunni þar sem meginstrengurinn sker ána. Kasta þarf flugunni yfir þennan streng og kemba breiðuna niður á brot, niður fyrir stóran stein í lygnunni að norðanverðu. Klingenberg sjálfur er djúpur og stuttur. Þetta er frábær veiðistaður, ekki síst með Portlandsbragði. Neðri-Klingenberg er útfallið úr aðalhylnum, tökustaðurinn er þar sem straumiðurnar mætast efst í hylnum. Í Klingenberg eru oft stórir laxar og hef ég orðið vitni að allt að 23 punda fiskum lönduðum úr hylnum. Þarna veiddi ég eitt sinn nokkuð merkilegan fisk en sá greip hvíta lykkjuna (smokkinn) sem gjarnan er notuð til að tengja taum og flugulínu. Festust tennur laxins í þéttriðinni lykkjunni.

Laxfoss
Laxfoss er einn af bestu veiðistöðum Laxár. Hann fellur í tveimur meginhlutum og er syðri hlutinn betri. Það helgast af því að hann heldur betur vatni en þegar að vatn er gott er sá nyrðri enginn eftirbátur. Laxfoss er hindrun fyrir lax, sér í lagi þegar að vatn er mikið og/eða kalt. Hann er ekki auðveiddur og mikilvægast er að ana ekki út á klapparbrúnina að sunnanverðu. Þá er laxinn styggður og veiðilíkur nánast úr sögunni. Í stað þess er farið undir klappirnar með fossinum. Hér er kaðall sem gott er að halda við því að klappirnar eru hálar mjög. Hylurinn er svo veiddur með því að veltikasta, enda ekkert rúm fyrir að bakkast hér. Með landinu fyrir neðan sjálfan fosshylinn er renna þar sem göngufiskur stoppar gjarnan. Þar stendur grjót upp úr þétt við landið og fyrir framan það raðar laxinn sér oft. Gott er að muna eftir háfnum því að löndunaraðstaða er frekar bágborin. Sé kosið að veiða Laxfoss að norðanverðu er beygt út á lítinn afleggjara til vinstri neðan við veiðihúsið. Laxinn liggur frá hvítfissinu neðan við laxaþrepin og niður á breiðuna, allt eftir vatnsmagni. Erfitt er að vaða út að rennunni vegna stórgrýtis og hér er gott að notast við vaðstaf. Í Laxfossi getur safnast ótrúlegt magn á göngutíma.

Fossbreiða
Þetta er einn alskemmtilegasti veiðistaðurinn í ánni. Á breiðuna leggst göngulaxinn eftir hávaðann fyrir neðan. Á Fossbreiðunni eru grjót og rennur sem laxinn stoppar við og aukast veiðilíkurnar eftir því sem neðar er komið. Síðustu 5–6 metrarnir eru síðan heitasti staðurinn. Hér gerast ævintýrin, ekki síst þegar vænir fiskar láta sig gossa niður frussið fyrir neðan og stoppa ekki fyrr en komið er undir Kvíslafoss. Á Fossbreiðu er hægt að dunda sér heila vakt, því að reglulega renna sér nýir laxar inn á breiðuna og dæmi þess að veiðimenn setji í tugi laxa á einni vakt. Þess má geta að breiðan er einnig ágætur hauststaður og því er ljóst að lax liggur þarna allt sumarið. Neðan við Fossbreiðuna er Holan, lítill tveggja metra pallur sem gaman getur verið að enda vaktina á að skella Gárubragðinu yfir til að sækja bónuslaxinn.

Strengir og Skáfossar
Strengirnir geta verið inni þegar að lítið vatn er í Laxá. Í raun má segja að þeir séu bestir í vatnslitlum sumrum. Þá gengur laxinn upp og leggst í hraða súrefnisríka strengina. Bestir eru þeir til fluguveiða neðan til og þá pallarnir ofan Skáfossa. Sama má segja um syðri hluta Skáfossa. Í litlu vatni myndast þar álitlegur spegill sem gaman er að kasta á. Í meðalvatni eða meira fer laxinn hins vegar með norðurlandinu og þá er Skáfoss að norðan betri. Þar er á ferðinni ótrúlega skemmtilegur veiðistaður sem nálgast þarf ofanfrá og láta fluguna skauta í enda hvítfissisins.

Kvíslafoss og Lækjarbreiður
Kvíslafoss er besti veiðistaður Laxár fram yfir mitt sumar og fyrsti alvöru stoppustaðurinn. Hér er alltaf lax, nema í mestu flóðum. Veitt er af klöppunum neðan við bílastæðið og getur lax legið um allan fosshylinn. Þetta er auðveitt, enda kallar breskir veiðimenn hylinn gjarnarn Idiot´s pool sökum þess hversu auðveldur hann er. Neðan við hann taka við tveir pallar, Efri- og Neðri-Lækjarbreiður. Sá efri er gjöfulli, lítill strengur sem smellur á grjóti. Laxinn liggur í strengnum niður að grjótinu og hér gildir að hægja á agninu eins og kostur er með því að menda línuna. Neðri-Lækjarbreiða þarf gott vatn til að geyma lax en þá má oft fá þar nýrenning. Þegar vatn er mikið í Laxá verður erfitt fyrir laxinn á liggja á þessum gjöfulu veiðistöðum. Þá færist hann að bakkanum fjær og leggst í litlu kvíslina norðan ár. Í henni getur oft legið mikið af laxi í góðu vatni en staðurinn er fjarri því jafn gjöfull og Kvíslafossinn sjálfur.

Hornið, Bollastaðabreiða og Höklar
Hornið er lítill pyttur með norðurlandinu ofan brúar. Þar má oft sjá aftan á nokkra laxa sem geta ginið við túpu sem kastað er andstreymis. Betri er hins vegar Bollastaðabreiðan neðan brúar. Þar er skál úti í miðri á sem laxinn staldrar við og tekur eins og koli. Í góðu vatni er vandfundinn skemmtilegri veiðistaður. Höklarnir eru alla jafnan ekki opnir veiðimönnum. Þar gætir flóðs og fjöru og óvanir menn geta hrakið göngurnar aftur á haf út ef vaðið er út á grynningarnar. Þarna eru áður þekktir staðir líkt og Skástrengur, Aldan og Harðistrengur, en til þess að komast að þessum holum þarf að vera með vanann mann með sér. Greinarritari væri líklega enn að leita að Höklaholunum hefði hann  ekki haft þá feðga Ólaf og Ólaf frá Valdastöðum til að benda á þærar í upphafi. l a aim. Á ég þeim mikið að þakka ásamt Ásgeiri Heiðari sem hélt engu undan.

Bugða
Bugða er lítil og nett laxveiðiá. Áin er veidd með tveimur stöngum að jafnaði, sem gefur veiðimönnum nægt pláss. Fara þarf að veiðistöðum með gát og hér eiga nettar græjur vel við, flotlínur og smærri flugur.

Ósbreiða
Ósbreiðan er efsti veiðistaðurinn í Bugðuein. Hún er auðþekkt á litlum grashól norðan ár, neðan við útfallið úr Meðalfellssvatni. Reyndar er ágætis veiðivon í útfallinu sjálfu, sér í lagi þegar að haustar og laxinn sunkar sér niður úr vatninu. Hin hefðbundna Ósbreiða er skemmtilegur veiðistaður, hægt er að veiða hana af báðum bökkum en syðri bakkinn er ákjósanlegri.

Sleppitjarnarhylur/Bakkahylur
Neðan við Ósbreiðu fellur Bugða meðfram sleppitjörn, ofan við hana og meðfram henni eru ágætir veiðistaðir sem vert er að gefa gaum en Bakkahylur er næsti stoppustaður okkar. Hann hefur dalað mikið og þar liggur ekki jafn mikið af laxi og áður. Þetta er lygn staður, veiddur að norðanverðu og á hylnum þarf að vera gára til að r eitthvað veiðist. Kastað er að bakkanum fjær, flugan strippuð og varast ber að kippa flugunni of snemma upp.

Selvað
Selvað er skemmtilegur holbakki niður undan efstu brúnni á Bugðu. Laxinn liggur mest í strengnum sjálfum áður en áin beygir niður að lítilli grasnibbu sem stendur út úr holbakkanum. Hér er alltaf lax að finna.Vaða þarf ána og veiða staðinn af malarbakkanum.

Bugavað
Bugavað er einn af betri stöðum Bugðu hin síðari ár. Ekið er niður með Selvaði (gott að veiða Selvaðið fyrst því að vegurinn liggur fram á bakkann) og niður á túnið. Bugavaðið er stærsti veiðistaður árinnar, stór og lygn ofan við manngert útfall. Lax getur legið á allri breiðunni en vænlegast er efst í þrengingunni áður en áin breiðir úr sér en ef vatn er gott er ágætis straumur hylinn á enda. Neðri pallurinn í Bugavaði hefur oft á tíðum gefið vel. Þá er staðið neðan við manngerðu þrenginguna og kastað á strenginn. Undir honum er lygnt vatn sem laxinn liggur í.

Bugðufoss
Bugðufoss er sennilega þekktasti veiðistaður árinnar. Þetta er ekki eiginlegur foss, heldur flúðakafli sem endar í fallegum hyl þar sem Bugða tekur krappa beygju til norðurs. Hér er alltaf lax og besti tökustaðurinn er í strengnum sjálfum þar sem þrjú brún grjót eru í botni. Framan við þau liggur laxinn. Oft sýnir sig mikið af laxi við skurðopið í grasbakkanum handan ár. Sá lax er yfirleitt sýnd veiði en ekki gefin, þar er öfugstreymi og afspyrnu erfitt að fá hann til að taka.Til að veiða fossinn er best að standa í grjótflúðunum ofan hans.

Brúarstrengur og Holtshylur
Staðir þessir geta gefið þegar lax er að ganga. Hann sést oft ágætlega ofan af brúnni og þá þarf veiðimaðurinn að standa nánast undir brúnni. Hér er lítið rúm fyrir bakköst og gerir það hylinn ekki auðveiddan. Hér er ó oft lax og gjarnan tökuglaður. Í góðu vatni getur lax leynst í Holtshyl sem er í beinu framhaldi af Brúarstreng. Um er að ræða klapparkvörn sem hefur verið nokkuð vaxandi síðustu ár, væntanlega út af góðri vatnsstöðu.

Golfstraumur
Golfstraumur hefur verið einkar öflugur hin síðari ár. Þá er ekið norðan ár, niður veginn frá brúnni uns komið er að tveimur grjótgörðum. Efri garðurinn gefur lax í göngu en sá neðri er hinn eiginlegi veiðistaður. Byrja verður köstin vel ofan hans og veiða síðan hylinn ofan frá. Um leið og farið er að ganga niður með grasbakkanum styggist laxinn um leið.  Hér liggur mikið af laxi allt sumarið.

Einbúi
Einbúi er frábær veiðistaður undir stórum melhól. Búið er að setja grjót til að verja bakkann og er besti tökustaðurinn með grjótunum við landið fjær þegar að flugan dettur inn á lygna vatnið. Þetta hefur verið einn besti veiðistaður árinnar í seinni tíð. Veitt er af malareyri að norðanverðu og allur hylurinn veiddur niður í útfallið.

Símastrengur
Símastrengur er síbreytilegur frá ári til árs. Hin seinni ár hefur lax legið efst í þrengingunni áður en áin breiðir úr sér og grynnkar. Þar er torf í botni sem laxinn liggur við.

Móeyri
Móreyri er gamalgróinn og góður veiðistaður sem er nokkuð margslungin því að hann liggur í „S“. Sá er hér ritar veiðir efri hlutann bílmegin frá uns komið er undir miðjan hyl. Þá er farið niður fyrir hylinn, áin vaðin og hylurinn kláraður þeim megin frá. Með þessu móti er hægt að veiða hylinn án þess að styggja fiskinn. Í Móeyri er alltaf lax, sé hann á annað borð genginn í ána.

Fjárhúsbreiða og Stokkar
Fjárhúsbreiða er rétt neðan við Móeyrihei. Hún breytist mikið milli ára, sum árin er hún inni en önnur ekki. Stokkar eru þar vel fyrir neðan, hyldjúpir pyttir með grasbökkum á báðar hendur. Þetta eru erfiðir staðir sem þó geyma talsvert af ljónstyggum laxiur. Einna best hefur gefist að veiða þá andstreymis úr fjarlægð.

.