Fréttir

Veiðifélag Þverár segir upp samningi um uppkaup netalagna

Þekkt mynd frá Ferjukoti. Hún sýnir feðgana Þorkel og Magnús Fjeldsted með fisk eftir netaveiðar í Hvítá. Ljósm. Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri.

Árið 1990 var gert samkomulag milli Veiðifélags Hvítár í Borgarfirði og samtals sjö veiðifélaga í hliðarám Hvítár um leigu á réttinum til netaveiða allt frá ósi að ármótum Reykjadalsár. Í þessu samkomulagi fólst að greitt væri fyrir að netin yrðu ekki lögð. Þetta var gert með það að markmiði að sá lax sem annars yrði veiddur í net gengi óáreittur í hliðarárnar og myndi auka þar stangveiði. Veiðifélögin sem hafa staðið að þessum samningi undanfarin 35 ár eru Andakílsá, Gljúfurá, Gufuá, Norðurá, Þverá, Grímsá og Flóka. Hafa þessir samningar verið endurnýjaðir af og til allar götur síðan, en hafa undanfarin ár verið uppsegjanlegir hvert ár fyrir 1. október. Nú hefur Veiðifélag Þverár sagt upp samningi við netabændur vegna netaveiði veiðisumarið 2026. Því er enginn samningur í gildi og fyrirséð að netabændur munu að óbreyttu leggja net sín að nýju.
Skessuhorn fékk ábendingu um uppsögn samningsins og hafði samband við Óðinn Sigþórsson í Einarsnesi, formann netaveiðbænda hjá Veiðifélagi Hvítár. Hann segir að raunverulega sé verið að segja upp samningi um netaveiði fyrir hönd allra veiðifélaganna því þau skuldbinda sig eitt fyrir öll og öll fyrir eitt. „Þessi uppsögn samnings hefur í raun þegar tekið gildi og gildir fyrir netaveiði sumarið 2026.“ Hann segir að á sínum tíma hafi verið samið um upptöku 80 netalagna á félagssvæðinu. Neðstu lagnir tilheyra Borgarnesi, en þaðan upp með Hvítá og að Hofsstöðum í Stafholtstungum.
„Engar samræður hafa átt sér stað um samninginn eða breytingar á honum og því ber uppsögnin mjög brátt að. Því blasir það við að óbreyttu að þessi hlunnindi netabænda verða nýtt eins og gert var fyrir 35 árum síðan. Menn munu endurnýja net sín og leggja þau næsta vor, ef engir samningar eru um annað,“ segir Óðinn.
Samningur um uppkaup netaveiðinnar var eins og fyrr segir fyrst gerður árið 1990. „Ég minni á að í framhaldi af því hækkaði verð á veiðileyfum umtalsvert og með því móti stóðu veiðifélögin undir auknum kostnaði. Veiðimenn tóku þessu engu að síður fagnandi og þessi aðgerð var auk þess talin bæta mjög ímynd stangveiði í héraðinu. Nú skyldi maður ætla að fari netin niður aftur verði þessari hækkun skilað aftur til veiðimanna í lækkun á verði veiðileyfa,“ segir hann.

Óðinn segir að þegar netaveiðin var stunduð hafi annar hvor lax veiðst í net og hinn í stangveiðinni. „Aðgerðin að kaupa upp netalagnir hafði því gríðarleg áhrif á rekstur veiðifélaganna í héraðinu. Ekki síður skipti hún máli fyrir ímynd laxveiða í Borgarfirði sem háklassa laxveiðiáa. Netaveiðin hafði þar óneitanlega mjög neikvæð áhrif. Fyrir 1990 var veiðin farin að minnka, óánægju gætti hjá veiðimönnum og voru það þeir sem knúðu á um samning um uppkaup netaveiði. Til dæmis beitti SVFR sér mjög í aðdraganda þess.“ Óðinn segir að þetta sé ekki bjartasti dagur varðandi ímynd stangveiði í Borgarfirði. „Við munum nýta okkar hlunningin áfram, með einum eða öðrum hætti,“ segir hann.
Aðspurður segir hann að lokum að kostnaður veiðifélaganna af uppkaupum netalagna sé vel innan við tíundi partur af tekjum veiðifélaganna fyrir sölu laxveiðileyfa og fyrir veiðihúsin.

mm Skessuhorn

Fallegur lax úr Þverá