BækurFréttir

Veiðivinir, skemmtileg frásögn og fróðleikur

Screenshot

Barnabókin Veiðivinir eftir Gunnar Bendar er eina bókin í ár sem fjallar um stangaveiði í ám og vötnum á Íslandi. Í þessari fyrstu barnabók höfundar eru börn í aðalhlutverki og náttúran fær verðskuldað pláss í sögunni en þeir vinirnir Páll og Bjarni fara á nokkra veiðistaði sem eru rómaðir fyrir góða silungs- og laxveiði. Í bókinni eru einnig taldar upp helstu árnar á Íslandi þar sem stangaveiði er stunduð eins og í Elliðaám, Leirvogsá, Laxá í Kjós, Hítará , Langá, Norðurá, Hrútafjarðará, Víðidalsá, Blöndu, Svartá, Laxá í Aðaldal, Breiðdalsá og sjóbirtingsveiðin eins og í Tungufljóti, Tungulæk, Geirlandsá, Fossálum. 

Frásögnin er því góð blanda af fróðleik og skemmtun og sýnir vel hvernig stangveiði, náttúra og vinátta geta tengst í barnabók eins og Veiðivinir. Bókin er nú til sölu í flestum bókaverslunum Pennans í helstu veiðibúðu og er örugglega kærkomin í jólapakkana fyrir stúlkur og drengi á öllum aldri.

Grípum einnig niður í 8. kafla þar sem krummi hefur komist í veiðidót vinanna:?
„Dagurinn hófst með hávaða og látum. Þeir vöknuðu við hrafninn sem flogið hafði inn í tjaldið þeirra og fór hvergi. Staðan var alls ekki glæsileg en með herkjum tókst að fæla hann út en þá tók nú ekki betra við. Krummi hafði komist í veiðidótið og klárað að éta næstum alla ánamaðkana úr fötunni, svo þeir voru orðnir maðkalausir! En það þýddi ekkert að hengja haus. Flugurnar sem þeir hnýttu í vetur myndu nú koma að góðum notum. Hrafninn sem borðaði alla ánamaðkana flaug lágt yfir tjaldinu og skimaði eftir meira góðgæti… Páll er skrefinu á undan Bjarna að kasta út og þeir eru komnir neðst í lækinn við Laxárvatnið þar sem oft er laxavon við stein sem er nokkra metra frá landi. Þeir höfðu lesið um að þar hefðu veiðimennn oft veitt laxa. Nokkra silunga höfðu þeir veitt á fluguna en ekki stóra, samt var mjög skemmtilegt. Veðrið var gott. Palli kastar flugunni eins og langt og hann getur að steininum góða en ekkert gerist. Hann kastar aftur og þá er tekið hraustlega í verulega snögg og ákveðin taka. En fiskurinn sleppur Palli skoðar fluguna og það er allt í lagi með hana. Það liggur eitthvað í loftinu…“