FréttirUmræðan

Fundur hagsmunaaðila og áhugamanna um stöðu laxins

Six Rivers Iceland býður til opins fundar á Vopnafirði, á laugardag um stöðu, tækifæri og ógnir sem við blasa í lífríkinu þegar kemur að villtum fiskistofnum í ferskvatni á Íslandi. Vísindamenn, hagsmunaðilar og landeigendur fara yfir stöðuna og horfa til framtíðar.

Markmiðið með fundinum er að veita upplýsingar og um leið að kalla eftir skoðanaskiptum við hagsmunaaðila og landeigendur sem eiga og gæta þeirra náttúruauðlinda sem íslenskar laxveiðiár og lífríki þeirra eru. 

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Iceland:

„Við höfum staðið fyrir margvíslegum ráðstefnum og fundum með hagsmunaaðilum í gegnum árin. Við lítum á þetta sem lið í því að miðla upplýsingum til landeigenda og áhugafólks um lífríkið og þá með sérstakri áherslu á laxinn. Félagið stundar viðamiklar rannsóknir á hegðun laxins í þeim ám sem við leigjum og rekum. Þær niðurstöður eiga erindi til allra. Það er ljóst að Atlantshafslaxinn á mjög undir högg að sækja vegna ógna sem að honum steðja. Þær ógnir er bæði af mannavöldum og einnig er náttúran breytingum háð. Til þess að eiga von um að hjálpa laxinum er nauðsynlegt að hafa sem gleggstar upplýsingar um hvar áhrifin eru mest. Þær rannsóknir sem Six Rivers Iceland stundar í sínum ám eru umfangsmiklar og eru stöðugt að bæta í þá þekkingu sem til er. Á fundinum verður meðal annars farið yfir hvað bæst hefur í þann þekkingarbrunn. Með upplýsingagjöf af þessu tagi erum við líka að hvetja okkar samstarfsfólk sem eru landeigendur og hagsmunaaðilar að taka þátt í baráttunni sem snýst um umhverfisvernd og ábyrgð á þeim náttúruperlum sem laxveiðiárnar á Íslandi eru.“

Fundurinn verður haldinn í félagsheimilinu Miklagarði á Vopnafirði, laugardaginn 29. mars. Hann er öllum opinn á meðan að húsrúm leyfir. Hádegismatur og léttar veitingar eru í boði.

Fundaformið verður með þeim hætti að flutt verða stutt erindi sem taka til helstu þátta sem skipta máli varðandi hagsmunagæslu og þá náttúruvernd sem þarf að vinna að.

Erindi flytja:

Stefán Hrafnsson, Six Rivers Iceland
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnssvið Hafrannsóknastofnunar
Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga
Haraldur Eiríksson, leigutaki Laxár í Kjós
Katrín Oddsdóttir, lögmaður og baráttukona gegn sjókvíaelda

Hádegisverðarhlé er gert milli erinda og að þeim loknum verður efnt til pallborðsumræðna þar sem fundargestum gefst kostur á spyrja spurninga. Frummælendur verða í pallborðinu ásamt fulltrúa landeigenda.

Umræðunum stýrir Eggert Skúlason, fréttamaður.
Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Iceland setur fundinn sem hefst klukkan 11.

Um Six Rivers Iceland:
Six Rivers Iceland er óhagnaðardrifið félag sem leigir og rekur nokkrar af fallegustu og um leið gjöfulustu laxveiðiám Íslands. Félagið leggur áherslu á náttúruvernd, uppbyggingu og viðhald laxastofnsins og lífríkis almennt í ánum sem félagið fóstrar. 

Viðamikið rannsóknarstarf er stundað á vegum Six Rivers Iceland og hefur félagið staðið fyrir umfangsmiklu rannsóknarstarfi á ferskvatnslífríki í samstarfi við fremstu vísindamenn í heimi á því sviði. Haldnar hafa verið fjölmargar ráðstefnur, á vegum félagsins um rannsóknarstarfið og náttúruvernd í tengslum við uppbyggingu laxastofnsins í Atlantshafi.

Fundurinn á Vopnafirði 29. mars næstkomandi er liður í því að upplýsa almenning og hvetja hagsmunaaðila til dáða á þessu sviði.