Ragnar Ingi Indíönuson með Maríulaxinn

Í dag var SVFR með svo kallaðan ungmennadag í Elliðaánum, eins og undanfarin sumur. Ungum meðlimum félagsins býðst að koma og veiða eina vakt í þessari perlu Reykjavíkur. Fyrirkomulagið er þannig að 16 krakkar fá að veiða fjögur svæði á fimm tímum og mörg þeirra eru mætt til þess að reyna að ná Maríulaxinum.

Fyrri vaktin gaf 10 laxa og henni lauk með pylsuveislu við veiðihúsiið. Þar komu einnig þau sem veiddu seinni vaktina og fengu feður, mæður, afar og ömmur góð ráð frá þeim sem voru að ljúka vaktinni með pylsunni.  

Síðan var dregið og ungir veiði drengir og stúlkur héldu vongóð af stað í einstaklega góðu, já, kannski of góðu, veðri.

Seinni vaktin gaf einnig nokkra laxa, þar á meðal þann sem má sjá hér á meðfylgjandi mynd. Á henni er Ragnar Ingi Indíönuson, 10 ára, með rétt um 70 sm nýrunninn lax sem hann veiddi í Árbæjarhyl – þó löndun hafi farið fram nokkru neðar. Maríulaxinn hans Ragnars tók Silver sheep númer 14. 

Einstaklega vel er að þessum degi staðið hjá Stangaveiðifélaginu og Mikael Marinó Rivera, sem heldur utan um daginn. Í lok dags fengu þau sem veiddu sinn fyrsta lax sérstakt Maríulaxa heiðursmerki – og það var ekki laust við að gleðin sem skein úr augum krakkanna hafi verið einlæg og ósvikin. Hvað er betra en að fá fyrsta laxinn?