FréttirRjúpanSkotveiðiVeiðisaga

Rjúpnaveiði, hefð sem hefur verið við lýði í áratugi

Mig langar að segja ykkur frá jólamat fjölskyldunnar, rjúpunni.

Við göngum ár hvert á fjall fleiri kílómetra til að sækja jólamatinn. Í misgóðu veðri, en alltaf innan skynsamlegra marka og vel útbúin. Þorgeir, eiginmaður minn, og ég höfum nú haldið þeirri hefð síðan 2018 að fara saman að minnsta kosti eina rjúpnaveiðiferð, með misgóðum árangri en þó þannig að alltaf hefur rjúpa verið á borð borin.

Hefðin að hafa rjúpu um jólin er okkur kær. Einmitt vegna þess að við leggjum mikla vinnu í veiðina og matseldina. Hún er elduð á ýmsan hátt en hjá okkur eru bringurnar smjörsteiktar og beinin eru soðin í lengri tima í grunn fyrir rjómasósuna. Svo er bara að skella rjúpunni, sósunni og einföldu meðlæti á diskinn og njóta afraksturs vinnunnar sem lögð var í jólamatinn.

Það eru forréttindi að fá að veiða rjúpu. Skotvís, hagsmunasamtök veiðifólks á Íslandi hefur ár hvert unnið þrotlausa vinnu til að tryggja að veiðifólk fái að ganga til rjúpna. Að halda við hefð sem hefur verið við lýði í áratugi. Þetta er mikil vinna og oft vanþakklát. Ég er búin að vera í stjórn Skotvís meira og minna síðan 2019 og er þetta sjálfboðaliðastarf. Vinna við og innleiðing nýs veiðistjórnunarkerfis rjúpunnar er eitt af fjölmörgum verkefnum sem Skotvís hefur tekið þátt í. Tilgangur kerfisins er sá að veiði úr stofninum miðist við talningar og vísindaleg gögn, ekki geðþótta ákvarðanir sem teknar eru án upplýstrar ákvörðunar. Veiðifólk vill stunda sjálfbærar veiðar með virðingu fyrir náttúrunni og forðast ofveiði úr stofni sem sér þúsundum landsmanna fyrir dýrmætum jólamat. Stundum gengur veiðin vel og stundum alls ekki. Það er bara svoleiðis og við höfum þann valkost að skjótast í búðina og seilast í allskyns gúmmelaði sem kemur þá í stað íslenska hvítagullsins okkar. Skotvís stýrir ekki veiðilöggjöf Íslands (ekki veðri og vindum heldur) en við gerum okkar allra besta svo veiðifólk fái að njóta þeirra forréttinda að ganga á fjöll umvafin  náttúrunni sem okkur þykir svo vænt um og veiða í jólamatinn. Við tökum því ekki sem sjálfsögðum hlut og erum þakklát fyrir samvinnu með veiðifólki, Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, hagaðilum, og vísindafólki sem tekur þátt í að tryggja sjálfbærar veiðar. 

Þórey Inga Helgadóttir rjúpnaskytta

Þórey Inga Helgadóttir