„Við skelltum okkur fjögur saman í tveggja daga ferð í Gljúfurá í Húnaþingi þar sem aðalmarkmið ferðarinnar var að Bríet Sif fengi maríulaxinn sinn,“sagði Styrmir Gauti Fjeldsted og bætti við; „við sáum ekki sporð fyrstu tvær vaktirnar og var maður ekki viss á þeim tímapunkti hvort markmiðinu yrði náð í þetta skiptið.
Við ákváðum að rölta niður í veiðistað 18 sem ber hið fagra nafn Gilkjaftur og sáum þar töluvert af lax og fylltist maður von um að það væri góður séns þarna, lofthiti góður og staðurinn líklega verið hvíldur í einhvern tíma.
Bríet byrjaði á að taka eina umferð með litlum rauðum hexagon Frances en ekkert gerðist. Næsta fluga sem varð fyrir valinu var þyngd kvarttommu Green Brahan túpa og nokkrum köstum seinna var hann kominn á.
Var þessum glæsilega 66cm hæng landað fagmannlega á ca 8 mínútum sem þó leið eins og heil eilífð og hef ég aldrei verið jafn stressaður á háfnum góða. Markmiðinu var náð,“ sagði Styrmir að lokum.