Urriðagangan er á Þingvöllum á morgun, laugardaginn 14. október og hefst kl 14:00 á brúnni við bílastæðið þar sem forðum stóð hótelið Valhöll. Þeir sem vilja sjá meira af fallegum Þingvallaurriðum og heyra meira um lífshætti þeirra geta síðan labbað með mér þaðan örstuttan spöl á úrvals göngustíg upp undir Drekkingarhyl þar sem síðari hluti fræðslu minnar fer fram með fulltingi urriða sem þar eru. Ungir sem aldnir er hvattir til að mæta. Í áranna rás hefur það sýnt sig að börn njóta þess að skoða urriðana líkt og þeir sem eldri eru, ekki síst vegna þess að ég set fáeina urriða í búr á árbakkann þannig að börnin fái tækifæri til að njóta urriðanna í meira návígi en ella væri. Veður verður gott samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands. Á vefsíðu Þingvallaþjóðgarðs er að finna nánari upplýsingar um tilhögun fræðslugöngunnar og hagnýt atriði því tengd svo sem um staðsetningu þeirra bílastæða sem best er að nýta.