Veiðistaðalýsingar af veiðiánum, nú á vefnum
„Við erum að dunda okkur við það að setja inn á vefinn okkar veiðistaðalýsingar úr gömlum og nýjum blöðum,“ sagði Marteinn Jónasson útgáfustjóri hjá Sportveiðiblaðinu í samtali við veidar.is. „Okkur hefur sjálfum oft fundist vanta að geta fundið upplýsingar um ár þegar við förum að veiða á nýjum slóðum og því finnst okkur þetta alveg gráupplagt og þó að sumar þeirra séu gamlar þá eru þær í fullu gildi með ákveðnum fyrirvörum. Það er t.d. stundum talað um maðkaveiði í ám sem síðan hafa í millitíðinni bannað maðkinn. Við vonum að veiði fólki eigi eftir að líka þetta framtak okkar, já og þetta er „verk í vinnslu“ því það er ekki allt komið inn,“ sagði Marteinn enn fremur.
Fjörutíu ára saga af um 60 til 70 veiðiám er fengur fyrir veiðimenn en fyrsta lýsingin sem blaðið birti var Gljúfurá í Borgarfirði og síðan verið birt lýsing á flestum veiðiám landsins. Það er byrjað rólega en svo bætast árnar við ein af annarri, af nógu er að taka. „Þetta er fróðleikur af bestu gerð og svæðin mörg til að skrifa um, enda árin orðin 40 allavega, síðan fyrsta lýsingin kom í blaðinu,“ sagði Gunnar Bender ritstjóri Sportveiðiblaðsins um þetta skemmtilega verkefni.

