Við fjölskyldan vorum við veiðar tvo daga í júlí í Soginu, nánar til tekið dagana 17. – 18. júlí 2023 á svæði Syðri Brúar, sem er einnar stangar svæði, steinsnar frá Selfossi. Þetta var okkar fyrsta skipti á svæðinu og spennan leyndi sér ekki.
Við erum öll forfallið veiðiáhugafólk og síðustu árin höfum við sífellt verið að leita að fjölskylduvænum veiðisvæðum sem henta fyrir alla fjölskylduna, með góðu veiðihúsi þar sem hægt er að sjá um sig sjálfur. Veiðisvæðið við Syðri Brú í Soginu bauð upp á allt framangreint. Veiðihúsið sjálft er mjög rúmgott og með gríðarlega fallegu útsýni úr morgunverðarkróknum, með gistingu fyrir allt að tólf manns, rúmgóðri stofu og stórum palli með útsýni yfir ána.Tilvalið til að taka á móti fleiri fjölskyldumeðlimum t.d. íkvöldverð en við okkar hóp bættist fólk í kvöldmat seinni daginn sem eyddi nótt í húsinu með okkur enda nóg pláss. Í húsinu er allt til alls og að sjálfsögðu björgunarvesti í öllum stærðum. Stutt ganga er frá húsinu niður að einum gjöfulasta veiðistaðnum á svæðinu, Landaklöpp, sem situr beint neðan við veiðihúsið.
Við eyddum mestum tíma á Landaklöppinni og fengum þar alla þrjá laxana sem komu á land í túrnum þrátt fyrir mikla veðurblíðu, glampandi sól og 20 stiga hita. Þar lá hann rétt ofan við brotið þar sem Landaklöppinni sleppir. Við fengum einnig nokkra misstóra urriða sem allir vöktu ánægju yngri kynslóðarinnar. Við Landaklöppina og í Sakkarhólma sáum við mikið af flottum bleikjum ca. 2.5 pund að stærð.
Helga Birna, sú 10 ára, setti í og landaði fyrsta laxinum sínum á flugustöng á fluguna „skáskorin skugga“ eftir ágætis baráttu sem skilaði 64 cm hæng. Hún hefur áður veitt bæði sjóbirtinga og urriða og fannst það mikil upplifun að fá lax á stöngina sem hún lýsti með þessum orðum. „mamma, þetta er ekki eins og venjulegur fiskur!“. Sú yngri, Unnur Hrefna, hefur mestan áhuga á að handleika fiskana eftir að þeir hafa verið rotaðir þegar engin hætta er á að þeir bregði henni eða sprikli úr höndunum á henni.
Sólin skein ofan í fallega hyli bergvatnsárinnar og það var stutt að ganga milli hinna átta merktu veiðistaða svæðisins og urðum við vör við fiska á fleiri stöðum m.a. í Bláhyl og Sakkarhólma og víðar. Deginum lauk með smávægilegu óhappi þegar appelsínugul „frances“ festist í handarbaki eins veiðimannsins en eftir stutt símtal til góðs vinar, sem leiðbeindi um næstu skref, var flugunni snyrtilega og örugglega kippt úr sem forðaði því að dýrmætum tíma yrði eytt
í akstur inn á Selfoss. Flugan hins vegar týndist á árbakkanum í herlegheitunum. Ef hún svo ólíklega finnst aftur hlýtur hún að teljasthappafengur fyrir þann sem hana finnur.
Syðri Brú í Soginu var frábært veiðisvæði sem við hlökkum til að heimsækja aftur næsta sumar!